Adam Lallana, leikmaður Brighton, þurfti að 'gúggla' leikstíl Jürgen Klopp eftir að hann tók við Liverpool árið 2015, en hann segir frá þessu í nýjum heimildarþáttum um þýska stjórann.
Klopp tók við Liverpool eftir að Brendan Rodgers var rekinn frá félaginu fyrir sjö árum.
Hann hafði gert frábæra hluti með Mainz og Borussia Dortmund en Lallana, sem var þá á mála hjá Liverpool, var ekki klár á leikaðferðum stjórans.
„Ég man að ég var í landsliðsverkefni þegar hann var kynntur og ég skrifaði nafn hans á Google til að sjá hvernig fótbolta hann vildi spila. Ég hafði augljóslega átt erfitt ár og vildi koma ferlinum með Liverpool af stað. Ég man að hann sagði að hann væri hrifinn af 'gegenpressing' og ég spurði sjálfan mig hvað það væri eiginlega?“
„Þú horfir á þetta og þetta er einhverskonar týpa af því að pressa hátt uppi og mikið af hlaupum. Ég hugsaði auðvitað að þetta væri týpan af fótbolta sem ég vildi spila. Hann lifir á þessu og vill að liðið spili af ástríðu. Ég held að það sé ekki til betri leið til að sýna gott fordæmi og hann gerði það á hverjum einasta degi,“ sagði Lallana.
Þetta segir hann í þáttunum Jürgen, en Lallana spilaði í sex ár hjá Liverpool áður en hann fór til Brighton.
Athugasemdir