Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 14. desember 2022 16:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Vill vera áfram á Íslandi eftir „óraunverulegan tíma" - „Hef mun meira fram að færa"
Hluti af liði Breiðabliks sem varð Íslandsmeistari
Hluti af liði Breiðabliks sem varð Íslandsmeistari
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skjöldurinn á loft!
Skjöldurinn á loft!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fékk tveggja leikja bann fyrir olngbogaskot gegn Leikni.
Fékk tveggja leikja bann fyrir olngbogaskot gegn Leikni.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Ég veit að ég hef mun meira fram að færa en ég sýndi á þessu tímabili
Ég veit að ég hef mun meira fram að færa en ég sýndi á þessu tímabili
Mynd: New York Red Bulls
Omar Sowe er 22 ára Gambíumaður sem lék með Breiðabliki á liðnu tímabili. Hann er sóknarmaður sem var á láni frá bandaríska félaginu New York Red Bulls. Hann er fæddur í Gambíu en hefur búið í Bandaríkjunum stærstan hluta lífs síns.

Fótbolti.net heyrði af því að Omar hefði áhuga á því að spila áfram á Íslandi og var hann fenginn í viðtal. Byrjað var á því að ræða tímabilið, Breiðablik og aðdragandann að því að hann kom til Íslands.

„Síðasta vetur var ég að leitast eftir því að komast eitthvert á lán. Umboðsmaðurinn þekkti til hjá Breiðabliki og það varð úr að ég fór þangað. Ég vissi ekkert um Ísland áður en ég kom en ég var spenntur og vildi prófa eitthvað nýtt," sagði Sowe sem er hjá umboðsskrifstofunni Stellar.

Erfiðasta tímabilið á ferlinum
Hann kom við sögu í sautján deildarleikjum, byrjaði tvo, kom fimmtán sinnum inn á, var fimm sinnum ónotaður varamaður og fimm sinnum utan hóps.

„Ég er ánægður með hvernig tímabilið gekk hjá liðinu. Persónulega var þetta mitt erfiðasta tímabil á ferlinum. Ég var ekki upp á mitt besta, hvorki andlega né líkamlega allt frá því ég kom til Íslands. Það er hægt að sjá það í þeim mínútum sem ég fékk, mér finnst ég hafa fengið sanngjarnan fjölda af mínútum, sérstaklega ef horft er í hversu vel liðið var að spila. Ég vissi að hlutverkið mitt væri að hjálpa liðinu, það er það sem ég reyndi að gera og er glaður að ég var hluti af þessu ferðalagi liðsins."

Fólkið stóð upp úr og Omar telur sig hafa meira fram að færa
Hvernig leið honum á Íslandi? Sowe var spurður út í kosti og galla.

„Tími minn á Íslandi var óraunverulegur, ég hef aldrei farið neitt frá Bandaríkjunum, svo það var mjög gaman að upplifa annan kúltúr. Það sem stendur upp úr er fólkið, mér líkaði mjög vel við það. Gallarnir voru ekki margir, kannski helst veðrið, en það er bara eins og það er."

Hann er í sambandi með Esther Rós Arnarsdóttir sem uppalin er hjá Breiðabliki en hefur leikið með FH undanfarin ár. Hún var hluti af liði FH sem vann Lengjudeildina á liðnu tímabili. Væri Omar til í að koma aftur til Íslands?

„Já, ég væri til í að koma aftur til Íslands til að spila, fá annað tækifæri. Ég veit að ég hef mun meira fram að færa en ég sýndi á þessu tímabili og vonandi get ég svo unnið mig upp stigann í Evrópu."

Samningur hans við Red Bulls rennur út um áramótin og eftir það er honum frjálst að ganga í raðir annars félags. Heyrst hefur af áhuga félaga á Íslandi á kappanum og spurning hvort hann taki annað tímabil hér á landi.

„Soft" leikbann og tvö sigurmörk
Sowe vakti athygli í sumar þegar hann fékk tveggja leikja bann fyrir olnbogaskot í leik gegn Leikni. Það vakti sérstaka athygli því hann var dæmdur út frá myndbandsupptöku. Hvað fannst Sowe um þann dóm?

Lestu um málið:
Ósk Breiðabliks um leyfi til að áfrýja niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar hafnað

„Mér fannst tveggja leikja bannið svolítið „soft" og ef það á að dæma út frá myndböndum ætti að skoða allt og alla."

Sowe skoraði tvö mörk í deildinni og tvö í bikarnum. Tvö þeirra voru sigurmörk, eitt í lokin gegn Fram í deildinni og svo eina markið í nágrannaslagnum gegn HK í bikarnum.

„Mér finnst það sýna hvernig týpa ég er, ég er markaskorari. Ég get fundið markið jafnvel þó að tíminn inn á vellinum sé takmarkaður. Ég vil hjálpa því liði sem ég spila með, það er markmiðið. Ég var ánægður að geta stigið upp fyrir liðið nokkrum sinnum, en eins og ég segi þá býr mun meira í mér og vonandi get ég sýnt það," sagði Sowe að lokum.


Glaður að ég var hluti af þessu ferðalagi liðsins
Athugasemdir
banner
banner
banner