Newcastle ætlar að bjóða 80 milljónir fyrir Guéhi - Palmer ekki til sölu - Wirtz eftirsóttur - Man Utd vill ráða Amorim - Trent og Frimpong á...
   lau 19. október 2024 12:00
Ívan Guðjón Baldursson
Englendingar hissa að ekki hafi verið rætt við Howe
Mynd: EPA
Það tók enska fótboltasambandið nokkra mánuði að finna arftaka fyrir Gareth Southgate við stjórnvölinn hjá landsliðinu.

Það voru ýmsir þjálfarar sem komu til greina og var Eddie Howe, þjálfari Newcastle United, sterklega orðaður við starfið en hann segir að fótboltasambandið hafi aldrei haft samband.

Mark Bullingham, framkvæmdastjóri sambandsins, sagði á dögunum að sambandið hafi rætt við tíu enska þjálfara áður en ákvörðun var tekin um að ráða hinn þýska Thomas Tuchel í starfið.

Það kemur mörgum gríðarlega á óvart að fótboltasambandið hafi ekki sett sig í samband við Howe, sem er einn af þremur enskum þjálfurum í ensku úrvalsdeildinni, áður en Tuchel var ráðinn.

„Fótboltasambandið setti sig aldrei í samband við mig," sagði Howe og var svo spurður hvort sú staðreynd hafi truflað hann eitthvað. „Enska landsliðið þarf að gera það sem stjórnin telur vera rétt hverju sinni. Ég reyndi að hugsa sem minnst um þetta, ég hef nóg á minni könnu hjá Newcastle."

Howe þekkir vel til Tuchel eftir að hafa fylgst náið með honum þegar hann þjálfaði Chelsea. Howe var þá án atvinnu og fékk að fylgjast með störfum Tuchel hjá Chelsea í nokkra daga þegar hann vann Meistaradeildina 2021.

„Við Tuchel eigum í góðum samskiptum og ég var svo heppinn að fá að fylgjast með honum þegar hann þjálfaði Chelsea. Hann er frábær manneskja og stórkostlegur þjálfari. Ég fékk bara tvo daga með honum hjá Chelsea en hann hreif mig og ég hef fulla trú á honum í landsliðsþjálfarastarfinu. Ég vona að England vinni marga titla undir hans leiðsögn."

Graham Potter er annar enskur þjálfari sem var orðaður við landsliðsstöðuna, en hann segir að fótboltasambandið hafi aldrei sett sig í samband. Fjölmiðlar á Englandi eru því byrjaðir að spyrja sig hvaða tíu kandídata enska fótboltasambandið ræddi við áður en Tuchel var ráðinn.

Englendingar eru mjög hissa á því að fótboltasambandið hafi hvorki rætt við Graham Potter né Eddie Howe um starfið.

Alan Shearer, Sean Dyche og Ange Postecoglou eru meðal þeirra sem segjast vera hissa á þeirri ákvörðun.
Athugasemdir
banner
banner
banner