Newcastle ætlar að bjóða 80 milljónir fyrir Guéhi - Palmer ekki til sölu - Wirtz eftirsóttur - Man Utd vill ráða Amorim - Trent og Frimpong á...
banner
   lau 19. október 2024 16:01
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Ótrúleg dramatík í sigri Víkings á Akranesi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Víkingur R.
ÍA 3 - 4 Víkingur R.
1-0 Johannes Vall '42
2-0 Hinrik Harðarson '45
2-1 Erlingur Agnarsson '47
2-2 Nikolaj Hansen '75
3-2 Viktor Jónsson '86
3-3 Erlingur Agnarsson '88
3-4 Danijel Dejan Djuric '96

Lestu um leikinn: ÍA 3 -  4 Víkingur R.

Fyrstu leikjum dagsins er lokið í næstsíðustu umferð Íslandsmeistaramóts karla, þar sem titilbaráttulið Víkings R. heimsótti ÍA í ótrúlega spennandi slag á Akranesi.

Víkingur byrjaði leikinn af miklum krafti en tókst ekki að skora í fyrri hálfleik. Þess í stað gerðu Skagamenn tvö mörk til að taka forystuna skömmu fyrir leikhlé.

Fyrst skoraði Johannes Vall beint úr aukaspyrnu og gaf svo flotta fyrirgjöf sem Hinrik Harðarson stangaði í netið. Staðan 2-0 í hálfleik.

Erlingur Agnarsson byrjaði seinni hálfleikinn á því að minnka muninn með snyrtilegri afgreiðslu og komust Víkingar nokkrum sinnum nálægt því að jafna áður en Nikolaj Hansen setti boltann loks í netið á 75. mínútu.

Erlingur átti marktilraunina en Nikolaj snerti boltann áður en hann endaði í netinu og fær markið því skráð á sig. Einhverjir Skagamenn vildu fá dæmda rangstöðu en aðstoðardómarinn flaggaði ekki.

Staðan var orðin 2-2 á lokakaflanum en hvorugt lið var tilbúið til að gefast upp. Viktor Jónsson tók forystuna fyrir heimamenn á nýjan leik eftir frábæran undirbúning frá Inga Þór Sigurðssyni, sem var nýkominn inn af bekknum, en einni mínútu síðar jöfnuðu Víkingar og aftur var Erlingur á ferðinni.

Í þetta skiptið skoraði Erlingur stórkostlegt mark með glæsilegu skoti utan vítateigs og fær því skráða tvennu á sig auk stoðsendingar.

Fimm mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og var rafmögnuð spenna á vellinum þar sem bæði lið reyndu að sækja sér sigur. Fyrst komu Skagamenn boltanum í netið eftir hornspyrnu á 94. mínútu en markið var ekki dæmt gilt og geystust Víkingar í sókn beint í kjölfarið.

Þar átti Óskar Örn Hauksson gæðamikla fyrirgjöf sem rataði beint á kollinn á Danijel Dejan Djuric sem skallaði hann í netið til að gera ótrúlega dramatískt sigurmark á lokasekúndum leiksins.

Allur varamannabekkur Víkings rauk inn á völlinn til að fagna markinu og fékk Arnar Gunnlaugsson þjálfari gult spjald að launum.

Lokatölur urðu 3-4 fyrir Víking eftir gjörsamlega ótrúlegan slag. Víkingar fara því inn í lokaumferðina með toppsæti deildarinnar í hendi sér og mun nægja jafntefli gegn Breiðabliki til að tryggja Íslandsmeistaratitilinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner