Newcastle ætlar að bjóða 80 milljónir fyrir Guéhi - Palmer ekki til sölu - Wirtz eftirsóttur - Man Utd vill ráða Amorim - Trent og Frimpong á...
banner
   lau 19. október 2024 16:33
Ívan Guðjón Baldursson
England: Man Utd aftur á sigurbraut - Brighton vann í Newcastle
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Fimm leikir fóru af stað á sama tíma í ensku úrvalsdeildinni í dag og er þeim öllum lokið, þar sem Manchester United tók á móti Brentford og var undir í leikhlé. Hákon Rafn Valdimarsson var á bekknum hjá Brentford.

Ethan Pinnock skoraði undir lok fyrri hálfleiks með skalla eftir hornspyrnu til að taka forystuna, en Rauðu djöflarnir voru alls ekki sannfærandi í fyrri hálfleik.

Erik ten Hag hefur gefið góða ræðu því lærisveinar hans mættu tvíefldir til leiks inn í seinni hálfleikinn og voru fljótir að gera jöfnunarmark, þar sem Alejandro Garnacho skoraði gæðamikið mark eftir flottan undirbúning frá Marcus Rashford.

Það var aðeins eitt lið á vellinum í síðari hálfleik og komust Rauðu djöflarnir nokkrum sinnum nálægt því að taka forystuna áður en Rasmus Höjlund skoraði á 62. mínútu.

Þeim tókst ekki að setja þriðja markið en það þurfti ekki. Gestirnir frá Brentford áttu í miklu basli með að skapa sér færi í síðari hálfleik og var niðurstaðan verðskuldaður sigur Man Utd.

Man Utd er komið með 11 stig eftir 8 fyrstu umferðir tímabilsins, einu stigi meira heldur en Brentford.

Raúl Jiménez skoraði þá fyrsta markið snemma er Fulham tók á móti Aston Villa, en Morgan Rogers var snöggur að jafna metin.

Andreas Pereira klúðraði vítaspyrnu í jöfnum fyrri hálfleik en gestirnir í liði Villa gerðu út um viðureignina eftir leikhlé. Ollie Watkins skoraði fyrst eftir stoðsendingu frá Youri Tielemans, áður en Joachim Andersen lét reka sig af velli með beint rautt spjald fyrir brot sem aftasti varnarmaður.

Tíu leikmenn Fulham réðu ekki við Aston Villa og urðu lokatölur 1-3 eftir sjálfsmark frá Issa Diop. Villa er í fjórða sæti, með 17 stig eftir 8 umferðir.

Danny Welbeck skoraði eina mark leiksins er Brighton heimsótti Newcastle United. Heimamenn í Newcastle voru sterkari aðilinn en tókst ekki að skora í hörðum slag þar sem bæði lið fengu færi.

Lokatölur urðu þó 0-1 og er Brighton komið upp í 15 stig eftir sigurinn, þremur stigum fyrir ofan Newcastle.

Everton lagði þá nýliða Ipswich Town að velli í fallbaráttuslag þar sem Iliman Ndiaye og Michael Keane sáu um markaskorunina, á meðan Leicester City hafði betur í afar skemmtilegum nýliðaslag gegn Southampton.

Þar komust heimamenn í Southampton í tveggja marka forystu en Leicester kom til baka og sigraði með því að skora þrjú mörk í síðari hálfleik. Jordan Ayew kom inn af bekknum og skoraði sigurmarkið á 98. mínútu.

Manchester Utd 2 - 1 Brentford
0-1 Ethan Pinnock ('45 )
1-1 Alejandro Garnacho ('47 )
2-1 Rasmus Hojlund ('62 )

Fulham 1 - 3 Aston Villa
1-0 Raul Jimenez ('5 )
1-1 Morgan Rogers ('9 )
1-1 Andreas Pereira ('27 , Misnotað víti)
1-2 Ollie Watkins ('59 )
1-3 Issa Diop ('69 , sjálfsmark)
Rautt spjald: ,Joachim Andersen, Fulham ('64)
Rautt spjald: Jaden Philogene, Aston Villa ('93)

Ipswich Town 0 - 2 Everton
0-1 Iliman Ndiaye ('17 )
0-2 Michael Keane ('40 )

Newcastle 0 - 1 Brighton
0-1 Danny Welbeck ('35 )

Southampton 2 - 3 Leicester City
1-0 Cameron Archer ('8 )
2-0 Joe Aribo ('28 )
2-1 Facundo Buonanotte ('65 )
2-2 Jamie Vardy ('74 , víti)
2-3 Jordan Ayew ('98 )
Rautt spjald: Ryan Fraser, Southampton ('73)
Athugasemdir
banner
banner