Newcastle ætlar að bjóða 80 milljónir fyrir Guéhi - Palmer ekki til sölu - Wirtz eftirsóttur - Man Utd vill ráða Amorim - Trent og Frimpong á...
   lau 19. október 2024 11:24
Ívan Guðjón Baldursson
Ten Hag: Þið starfið við að búa til ævintýri og lygasögur
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Framtíð hollenska þjálfarans Erik ten Hag er í mikilli óvissu þar sem Manchester United hefur ekki farið vel af stað á nýju tímabili undir hans stjórn.

Rauðu djöflarnir eru aðeins komnir með 8 stig eftir 7 umferðir í ensku úrvalsdeildinni, auk þess að vera með tvö stig eftir tvær fyrstu umferðirnar í Evrópudeildinni.

Ten Hag hefur verið gagnrýndur í fjölmiðlum síðustu vikur og voru margir sem töldu að stjórn Man Utd myndi reka hann í landsleikjahlénu til að gera pláss fyrir nýjan stjóra, en svo varð ekki.

Ten Hag hefur endurtekið sagt við fjölmiðla að honum líði eins og hann njóti stuðnings frá stjórn félagsins þrátt fyrir erfiða byrjun á pappír.

„Öll þessi neikvæða umræða kemur bara frá ykkur fjölmiðlafólki, sem starfið við að búa til sögur og ævintýri sem eru smekkfull af lygum. Ég veit að allir innan félagsins eru á sömu blaðsíðu, eins og ég sagði við marga fréttamenn fyrir landsleikjahléð. Þessir fréttamenn virðast ekki hafa trúað mér miðað við fyrirsagnirnar í blöðunum í landsleikjahlénu," segir Ten Hag um stöðu mála.

Man Utd tekur á móti Brentford í enska boltanum í dag og þarf Ten Hag á sigri að halda í þeirri viðureign eftir fimm leiki í röð án sigurs í öllum keppnum. Brentford hefur ekki unnið fótboltaleik á Old Trafford síðan 1937 en komst nálægt því á síðustu leiktíð þar til Scott McTominay kom heimamönnum í Manchester til bjargar með tvennu á lokamínútunum.

„Auðvitað erum við ósáttir með stöðuna á stigatöflunni, við höfum ekki verið nægilega góðir. Þetta er staðreynd. Núna er mikilvægt að við höldum rónni og trú á verkefninu sem er í gangi hérna."

Ten Hag var að lokum spurður út í Sir Alex Ferguson, sem verður ekki lengur á launum hjá Man Utd eftir tímabilið. Ten Hag vonast þó til að Sir Alex verði honum enn innan handar á komandi misserum til að veita mikilvæga ráðgjöf.
Athugasemdir
banner
banner
banner