Newcastle ætlar að bjóða 80 milljónir fyrir Guéhi - Palmer ekki til sölu - Wirtz eftirsóttur - Man Utd vill ráða Amorim - Trent og Frimpong á...
banner
   lau 19. október 2024 16:17
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Gylfi klúðraði vítaspyrnu - Elfar afgreiddi Vestra
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
FH tók á móti Val í efri hluta Bestu deildar karla í dag á sama tíma og KA fékk Vestra í heimsókn í neðri hlutanum.

Lestu um leikinn: FH 1 -  1 Valur

Í Hafnarfirði var það Bjarni Mark Antonsson sem tók forystuna fyrir Valsara eftir hornspyrnu undir lok fyrri hálfleiks.

Valur gerði vel að drepa leikinn niður í síðari hálfleik og virtist á góðri leið með að landa 0-1 sigri þegar FH tókst að jafna eftir hornspyrnu á 99. mínútu. Orri Sigurður Ómarsson virtist þar verða fyrir því óláni að fá boltann í sig og skora sjálfsmark.

Valur var þó ekki búinn að gefast upp og fékk dæmda vítaspyrnu á 100. mínútu. Gylfi Þór Sigurðsson, ein af frægustu vítaskyttum í sögu Íslands, steig á vítapunktinn en Sindri Kristinn Ólafsson varði frá honum. Gylfi skaut á mitt markið en Sindri skutlaði sér og skildi fæturnar eftir í miðjunni til að verja.

Lokatölur urðu því 1-1 og er Valur áfram í Evrópusæti sem stendur, með tveggja stiga forystu á Stjörnuna sem á leik til góða gegn Breiðabliki síðar í dag. FH er í sjötta sæti.

FH 1 - 1 Valur
0-1 Bjarni Mark Antonsson '45
1-1 Orri Sigurður Ómarsson '99, sjálfsmark
1-1 Gylfi Þór Sigurðsson '101, misnotað víti

KA fékk þá Vestra í heimsókn til Akureyrar í neðri hlutanum og tók Elfar Árni Aðalsteinsson forystuna eftir 25 sekúndna leik. Ásgeir Sigurgeirsson gerði vel að stinga boltanum innfyrir sofandi varnarlínu Vestra og kláraði Elfar Árni snyrtilega.

Lestu um leikinn: KA 2 - 1 Vestri

KA var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og tvöfaldaði Elfar Árni forystuna eftir fyrirgjöf frá Ásgeiri, sem lagði því upp tvö mörk fyrir Elfar í dag.

Gestirnir frá Ísafirði voru betri í síðari hálfleik en tókst ekki að skapa mikla hættu fyrr en á lokamínútunum, þegar Pétur Bjarnason minnkaði muninn með síðustu snertingu leiksins. Pétur slapp í gegn eftir einfalda snertingu og skoraði, aðeins tveimur mínútum eftir að liðsfélagi hans Gunnar Jónas Hauksson fékk beint rautt spjald fyrir að stöðva hættulega sendingu viljandi með olnboga.

Lokatölur urðu því 2-1 og er Vestri áfram aðeins einu stigi frá því að bjarga sér frá falli úr efstu deild.

KA 2 - 1 Vestri
1-0 Elfar Árni Aðalsteinsson '1
2-0 Elfar Árni Aðalsteinsson '21
2-0 Gunnar Jónas Hauksson '94
2-1 Pétur Bjarnason '96
Athugasemdir
banner
banner
banner