Lilleström hefur ekki ennþá lagt fram tilboð í Gary Martin, framherja Víkings R. Heimir Gunnlaugsson, varaformaður Víkings, staðfesti þetta í samtali við Fótbolta.net í dag.
Gary fór til Lilleström á láni í ágúst og hjálpaði liðinu að bjarga sér frá falli í Noregi með því að skora fjögur mörk í tíu leikjum í úrvalsdeildinni.
Lilleström á kost á að ganga frá kaupum á Gary eftir lánssamninginn en ekkert hefur hins vegar gerst ennþá.
„Þeir hafa glugga til áramóta en þeir hafa ekki sent neina fyrirspurn eða tilboð," sagði Heimir við Fótbolta.net.
Að sögn Heimis hefur eitt tilboð komið í Gary í haust en það var frá íslensku félagi.
„Það kom eitt tilboð en því var hafnað. Það var eiginlega aldrei tekið til skoðunar," sagði Heimir.
Athugasemdir