Hollenski sóknarleikmaðurinn Joshua Zirkzee hefur ekki verið að standa sig nægilega vel frá því að hann var keyptur til Manchester United fyrir tæplega 40 milljónir punda síðasta sumar.
Zirkzee gerði góða hluti með Bologna í ítalska boltanum en hefur ekki staðið sig nægilega vel með Rauðu djöflunum, þar sem hann er búinn að skora 4 mörk og gefa 2 stoðsendingar í 27 leikjum.
Zirkzee hefur því verið orðaður við brottför frá Man Utd í janúar og var ítalska stórveldið Juventus nefnt til sögunnar sem áhugasamt um að fá leikmanninn á láni. Thiago Motta þjálfari hefur miklar mætur á honum eftir að hafa þjálfað hann í tvö ár hjá Bologna.
Cristiano Giuntoli, yfirmaður fótboltamála hjá Juventus, segist ekki vera búinn að ræða við Man Utd um Zirkzee en tjáði sig ekki um hvort félagið væri áhugasamt um að fá leikmanninn í sínar raðir.
„Við höfum ekki rætt við Manchester United um Joshua Zirkzee. Ég veit ekki hvað mun gerast næstu vikurnar, við erum alltaf tilbúnir til að stökkva á gott tækifæri ef það býðst," sagði Giuntoli.
Zirkzee skoraði 12 mörk og gaf 7 stoðsendingar í 37 leikjum með Bologna tímabilið 2023-24, en hann er 23 ára gamall.
Athugasemdir