Tierney að semja við Celtic
Mikel Arteta hefur staðfest að varnarmaðurinn mikilvægi Ben White verður frá keppni næstu vikurnar.
White er búinn að missa af tæpum tveimur mánuðum vegna hnémeiðsla og er líklegur til að missa af öllum 9 leikjum Arsenal í janúar.
„Ben White verður frá keppni í nokkrar vikur, við vonum að hann geti verið klár fyrir næstu mánaðamót en við gætum þurft að bíða lengur," sagði Arteta, sem var einnig spurður út í Takehiro Tomiyasu sem er búinn að vera fjarverandi vegna hnémeiðsla síðan í sumar, að undanskildum 7 mínútum sem hann spilaði í október.
„Tomiyasu er byrjaður að gera hluti á vellinum en hann er að koma aftur eftir langtímameiðsli og við þurfum að gefa honum tíma til að jafna sig."
Annars er það að frétta úr herbúðum Arsenal að skoski bakvörðurinn Kieran Tierney er nálægt því að semja við uppeldisfélagið sitt Celtic.
Tierney rennur út á samningi hjá Arsenal næsta sumar en hann lék á láni hjá Real Sociedad á síðustu leiktíð.
Tierney er spenntur fyrir að ganga í raðir Celtic og eru samningsviðræður komnar langt á veg.
Athugasemdir