Oliver Glasner þjálfari Crystal Palace býst ekki við að selja miðvörðinn eftirsótta Marc Guéhi í janúar, þrátt fyrir mikinn áhuga frá Newcastle.
Það sem meira er þá býst Glasner við að fá inn að minnsta kosti tvo nýja leikmenn til að styrkja leikmannahópinn, en Crystal Palace er komið með 20 stig eftir 19 umferðir - fimm stigum frá fallsæti.
„Það hefur enginn leikmaður hérna sagt við mig að hann vilji fara. Ég hef ekki áhyggjur af því að Marc eða neinn annar fari, en það er langur tími til stefnu. Janúarglugginn er opinn allan mánuðinn og það getur allt gerst í þessum fótboltaheimi," sagði Glasner.
„Við viljum fá tvo nýja leikmenn inn í mismunandi stöðum, þetta er markmiðið okkar í janúar. Félagið vinnur hörðum höndum að því að semja við rétta leikmenn en ég vil ekki nefna nein nöfn."
Eberechi Eze vakti mikinn áhuga síðasta sumar en það er óljóst hvort tilboð muni berast í janúar.
Athugasemdir