Sex mánuðir eftir af samningi
Það er tæpur mánuður í að portúgalska goðsögnin Cristiano Ronaldo eigi 40 ára afmæli.
Ronaldo sýnir þó engin merki um að hann ætli að slaka á og heldur áfram að raða inn mörkunum með Al-Nassr í efstu deild í Sádi-Arabíu.
„Ég er hamingjusamur í Sádi-Arabíu og fjölskyldunni minni líður vel. Við hófum nýtt líf í þessu fallega landi og okkur gæti ekki liðið betur. Ég legg mikla vinnu á mig hérna og ber mikla virðingu fyrir þessu fótboltafélagi. Ég ætla að virða samning minn við félagið og ég hef fulla trú á að hlutir munu breytast - Al-Nassr mun vinna fleiri titla!" sagði Ronaldo þegar hann var spurður út í framtíðina sína og hjá Al-Nassr, en samningur hans við félagið rennur út næsta sumar.
Al-Nassr er í fjórða sæti sádi-arabísku deildarinnar sem stendur, með 25 stig eftir 13 umferðir, og er Ronaldo næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar eftir Aleksandar Mitrovic, með 10 mörk og 2 stoðsendingar. Liðið er í góðri stöðu í Meistaradeild Asíu og þegar búið að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum þegar tvær umferðir eru eftir af deildakeppninni.
„Meistaradeild Asíu er keppni sem ég vil sigra fyrir þetta félag. Ég mun gera mitt besta til að hjálpa Al-Nassr að vinna titla. Ég trúi því að þetta verði mjög gott ár fyrir Al-Nassr."
Al-Nassr, sem er meðal annars með leikmenn á borð við Aymeric Laporte, Marcelo Brozovic og Sadio Mané á sínum snærum, er ellefu stigum á eftir toppliði Al-Ittihad í sádi-arabísku deildinni.
Athugasemdir