Spænskir fjölmiðlar greina frá því að Barcelona fái líklegast enga undanþágu frá La Liga til að skrá Dani Olmo og Pau Víctor til leiks.
Barcelona fór yfir leyft launaþak í La Liga en fékk undanþágu til að skrá Olmo og Víctor til leiks á fyrri hluta tímabils. Sú undanþága gildir ekki lengur og hefur komið í ljós að Börsungar þurfa að losna við leikmenn af launaseðlinum til að geta skráð inn nýja samninga.
Eric García gæti verið fyrstur til að fara þar sem Girona hefur mikinn áhuga á að kaupa hann og er reiðubúið til að greiða 10 milljónir evra.
García er 23 ára gamall miðvörður sem hefur komið við sögu í 13 leikjum með Barca á tímabilinu, en var í lykilhlutverki á láni hjá Girona á síðustu leiktíð.
Hann er uppalinn hjá Barcelona og Manchester City og á 19 A-landsleiki að baki fyrir spænska landsliðið eftir að hafa verið mikilvægur hlekkur upp yngri landsliðin.
Athugasemdir