Liverpool býður Trent væna launahækkun - PSG og Villa gætu skipst á leikmönnum - Zirkzee vill fara frá Man Utd
   fös 03. janúar 2025 22:08
Ívan Guðjón Baldursson
Spánn: Tíu Madrídingar með ótrúlega endurkomu
Mynd: EPA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: EPA
Valencia 1 - 2 Real Madrid
1-0 Hugo Duro ('27)
1-0 Jude Bellingham, misnotað víti ('55)
1-1 Luka Modric ('85)
1-2 Jude Bellingham ('96)
Rautt spjald: Vinicius Junior, Real Madrid ('79)

Valencia tók á móti Real Madrid í eina leik kvöldsins í efstu deild spænska boltans og úr varð gríðarlega mikil skemmtun þar sem dramatíkin var við völd.

Valencia átti frábæran fyrri hálfleik og tók forystuna á 27. mínútu þegar Hugo Duro skoraði eftir góða sókn. Bæði lið fengu færi en staðan var 1-0 í leikhlé.

Valencia pakkaði í vörn í síðari hálfleik og varðist vel. Kylian Mbappé slapp þó í gegn til að skora ótrúlega tæpt rangstöðumark og Jude Bellingham klúðraði vítaspyrnu en boltinn rataði ekki í netið. Leikmenn Real Madrid voru orðnir pirraðir og sást það augljóslega þegar Vinícius Júnior fékk að líta beint rautt spjald fyrir að bregðast illa við ögrun frá markverði Valencia.

Vinícius fékk rautt spjald á 79. mínútu og var króatísku kempunni Luka Modric skipt inn skömmu síðar. Þessi 39 ára gamli miðjumaður breytti leiknum og tók Real Madrid stjórn á leiknum þrátt fyrir að vera manni færri. Modric skoraði jöfnunarmark Madrídinga fimm mínútum eftir innkomu sína, eftir stoðsendingu frá Bellingham sem átti eftir að gera sigurmarkið í uppbótartíma.

Dómarateymið bætti níu mínútum við eðlilegan leiktíma og á 96. mínútu tókst Bellingham að gera sigurmarkið.

Það var á 100. mínútu leiksins sem Valencia átti sína síðustu sókn og átti skot í innanverða stöngina, en boltinn lak framhjá markinu og var ótrúlegur leikur flautaður af.

Þetta var fyrsti leikur Carlos Corberán við stjórnvölinn hjá Valencia og var frammistaða liðsins verulega flott í hans frumraun.

Real Madrid fer á topp spænsku deildarinnar með þessum sigri, þar sem liðið á 43 stig eftir 19 umferðir. Atlético Madrid er tveimur stigum á eftir og með leik til góða.

Valencia er áfram í næstneðsta sæti deildarinnar, með 12 stig eftir 18 umferðir.

   03.01.2025 21:47
Ótrúlegar senur í Valencia: Vinícius rekinn af velli

Athugasemdir
banner
banner
banner