Tottenham 1 - 2 Newcastle
1-0 Dominic Solanke ('4 )
1-1 Anthony Gordon ('6 )
1-2 Alexander Isak ('38 )
1-0 Dominic Solanke ('4 )
1-1 Anthony Gordon ('6 )
1-2 Alexander Isak ('38 )
Newcastle United vann fimmta deildarleik sinn í röð er liðið heimsótti Tottenham í hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar í dag en liðið kom til baka og vann 2-1 sigur í Lundúnum.
Það var fjör frá fyrstu mínútu. Dominic Solanke kom heimamönnum yfir á 4. mínútu.
Spænski hægri bakvörðurinn Pedro Porro kom með stórkostlega fyrirgjöf inn á miðjan teiginn á Solanke, sem var með Sven Botman í sér, en hafði betur og náði að skalla boltann í netið.
Adam var ekki lengi í paradís því aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Anthony Gordon metin eftir hápressu. Tottenham var í vandræðum með að spila í vörninni.
Lucas Bergvall fékk boltann fyrir utan teiginn og reyndi að stinga honum áfram en Joelinton tókst að vinna boltann sem skaust til Bruno Guimaraes. Hann lagði boltann síðan inn á Gordon sem kláraði úr þröngu færi.
Tottenham vildi fá dæmda hendi á Joelinton sem fór með olnbogann í boltann, en VAR útskýrði ákvörðun sína og sagði höndina í náttúrulegri stöðu og að um óviljaverk hafi verið að ræða. Markið var því gott og gilt.
Hinn 25 ára gamli Brandon Austin var í marki Tottenham og að spila sinn fyrsta deildarleik en hann var nokkuð öruggur í sínum aðgerðum í fyrri hálfleiknum og sá við Gordon þegar tæpur hálftími var liðinn.
Hann kom þó ekki vörnum við þegar sjö mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum. Jacob Murphy kom boltanum áleiðis á Alexander Isak sem skoraði þrettánda mark sitt í deildinni.
Tottenham var nokkuð heppið að vera ekki fleiri mörkum undir í hálfleik. Newcastle fékk svo sannarlega færin en nýtti illa.
Ange Postecoglou gerði fjórar breytingar á liðinu í hálfleik en þeir Heung-Min Son, James Maddison, Yves Bissouma og Sergio Reguilon komu allir inn.
Þegar tíu mínútur voru liðnar var Brennan Johnson nálægt því að jafna metin en tilraun hans hafnaði í stöng og tveimur mínútum síðar komst Gordon í færi hinum megin á vellinum en setti boltann yfir.
Newcastle-menn vildu vítaspyrnu er Dejan Kulusevski axlaði Gordon í andlitið en ekkert dæmt. Gordon var alblóðugur eftir samstuðið og þurfti að huga að honum áður en var síðan skipt af velli nokkrum mínútum síðar.
Tottenham reyndi hvað það gat til að koma inn jöfnunarmarki og fékk það rúmar tólf mínútur í uppbótartíma til þess að skora markið en aldrei kom það þrátt fyrir margar ágætis tilraunir.
Lokatölur í Lundúnum, 2-1, Newcastle í vil sem var að vinna fimmta leikinn í röð og er nú með 35 stig í 5. sæti deildarinnar en Tottenham áfram í 11. sæti með 24 stig.
Athugasemdir