Franska félagið Montpellier er í viðræðum við franska framherjann Wissam Ben Yedder en þetta kemur fram í franska blaðinu L'Equipe.
Ben Yedder er 35 ára gamall og var síðast á mála hjá Mónakó þar sem hann skoraði 118 mörk á fimm árum sínum hjá félaginu.
Frakkinn hefur verið einn besti sóknarmaður frönsku deildarinnar síðasta áratuginn en verið án félags síðan í sumar.
Í nóvember hlaut framherjinn tveggja ára skilorðsbundinn dóm fyrir að nauðga konu á frönsku riveríunni í Mónakó. Einnig var hann dæmdur fyrir að keyra undir áhrifum áfengis og fyrir að sýna ekki samstarfsvilja við rannsókn málsins.
Ben Yedder mun þurfa að mæta aftur fyrir dómara síðar á þessu ári. Eiginkona hans hefur farið fram á skilnað og segir Ben Yedder hafa beitt hana andlegu ofbeldi. Réttarhöldin í því máli hefjast 21. maí.
Dómurinn kemur ekki í veg fyrir að Ben Yedder geti haldið áfram að iðka fótbolta og segir L'Equipe frá því að Montpellier sé tilbúið að taka sénsinn á að fá hann.
Samkvæmt miðlinum er Frakkinn í góðu formi og reiðubúinn að takast á næstu áskorun ferilsins.
Viðræður eru í gangi á milli Ben Yedder og Montpellier og mun ráðast á næstu dögum hvort hann gangi í raðir félagsins eða ekki, en Montpellier þarf svo sannarlega á styrkingunni að halda enda situr liðið í botnsæti deildarinnar með aðeins 9 stig.
Athugasemdir