Liverpool opið fyrir tilboðum í Nunez - AC Milan vill fá Rashford - Ferguson á blaði hjá West Ham
   lau 04. janúar 2025 16:59
Brynjar Ingi Erluson
England: Man City tengdi saman sigra í fyrsta sinn síðan í október - Chelsea heldur áfram að tapa stigum
Erling Braut Haaland og Savinho voru frábærir
Erling Braut Haaland og Savinho voru frábærir
Mynd: EPA
Phil Foden skoraði fyrir Man City
Phil Foden skoraði fyrir Man City
Mynd: Getty Images
Jean-Philippe Mateta skoraði jöfnunarmark Palace gegn Chelsea
Jean-Philippe Mateta skoraði jöfnunarmark Palace gegn Chelsea
Mynd: EPA
Bryan Mbeumo átti enn einn stórleikinn með Brentford
Bryan Mbeumo átti enn einn stórleikinn með Brentford
Mynd: Getty Images
Englandsmeistarar Manchester City eru byrjaðir að finna taktinn á ný eftir slæman kafla en liðið vann annan leik sinn í röð er það sigraði West Ham, 4-1, á Etihad í dag. Chelsea tapaði stigum fjórða leikinn í röð er liðið gerði 1-1 jafntefli við Crystal Palace í Lundúnaslag.

Man City hafði ekki tengt saman deildarsigra síðan í lok október en það var í nóvember og desember sem liðið tók út versta kafla á þjálfaraferli Pep Guardiola.

Hann virðist vera að rétta úr kútnum því liðinu tókst að vinna annan leikinn í röð.

City-menn fengu örlitla hjálp við að komast í forystu gegn West Ham er tékkneski leikmaðurinn Vladimir Coufal stýrði fyrirgjöf Savinho í eigið net á 10. mínútu.

West Ham hafði átt tvö dauðafæri stuttu áður og var þetta því algerlega gegn gangi leiksins.

Savinho er búinn að vera öflugur undanfarið og hélt því áfram í dag en hann lék sér að varnarmönnum West Ham áður en hann kom með stórkostlega fyrirgjöf á fjær þar sem Erling Braut Haaland var mættur. Hann stangaði boltann í netið fyrir galopnu marki og staðan 2-0 í hálfleik.

Þeir tveir voru aftur á ferðinni snemma í síðari hálfleik. Savinho stakk boltanum inn fyrir á Haaland, sem tók snertingu framhjá Alphonse Areola áður en hann kom boltanum í netið. Stjörnuframmistaða hjá Savinho.

Phil Foden gerði fjórða markið eftir mistök West Ham. Edson Alvarez náði ekki til boltans sem skilaði sér til Kevin de Bruyne. Hann hafði allan tímann í heiminum og gat skotið, en ákvað í staðinn að leggja boltann til hliðar á Phil Foden sem var ekki í vandræðum með að koma boltanum í netið.

Niclas Füllkrug náði inn einu marki fyrir West Ham þegar tuttugu mínútur voru eftir. Tomas Soucek kom boltanum inn á teiginn á Füllkrug sem skaut föstu skoti í vinstra hornið.

Það reyndist síðasta mark leiksins og vann Man City annan leik sinn í röð. Liðið er í 6. sæti með 34 stig en West Ham í 13. sæti með 23 stig.

Chelsea heldur áfram að tapa stigum í toppbaráttunni en liðið gerði 1-1 jafntefli við Crystal Palace á Selhurst Park.

Cole Palmer skoraði mark Chelsea eftir undirbúning Jadon Sancho á 14. mínútu.

Færanýtingin varð Chelsea enn og aftur að falli. Liðið fékk tvö mjög góð færi til að gera út um leikinn í síðari hálfleik en klikkaði á þeim og refsaði Jean-Philippe Mateta eftir sendingu frá Eberechi Eze.

Chelsea er í 4. sæti með 36 stig, níu stigum frá toppnum og þá á Liverpool tvo leiki til góða. Palace er í 15. sæti með 21 stig.

Aston Villa vann nýliða Leicester, 2-1. Eftir markalausan fyrri hálfleik var það Ross Barkley sem kom heimamönnum í 1-0 á 58. mínútu en Stephy Mavididi jafnaði fimm mínútum síðar..

Jamaíkumaðurinn Leon Bailey skoraði sigurmarkið á 76. mínútu eftir að Ian Maatsen vann boltann. Hann dansaði inn í teiginn, kom boltanum á nær á Bailey sem skoraði. Bailey gat gert út um leikinn stuttu síðar en skot hans hafnaði í stöng áður en Ollie Watkins setti boltann yfir úr frákastinu.

Villa lét sér nægja 2-1 í dag og kemur sigurinn liðinu upp í 8. sæti með 32 stig. Leicester er í næst neðsta sæti með 14 stig.

David Brooks var hetja Bournemouth í 1-0 sigrinum á Everton en hann gerði eina markið eftir stoðsendingu Milos Kerkez á 77. mínútu og þá vann Brentford 5-0 stórsigur á botnliði Southampton.

Bryan Mbeumo fór hamförum með því að skora tvö og leggja upp eitt og þá komust þeir Kevin Schade, Keane Lewis-Potter og Yoane Wissa allir á blað.

Hákon Rafn Valdimarsson sat allan tímann á varamannabekk Brentford sem er í 10. sæti með 27 stig.

Bournemouth 1 - 0 Everton
1-0 David Brooks ('77 )

Aston Villa 2 - 1 Leicester City
1-0 Ross Barkley ('58 )
1-1 Stephy Mavididi ('63 )
2-1 Leon Bailey ('76 )

Crystal Palace 1 - 1 Chelsea
0-1 Cole Palmer ('14 )
1-1 Jean-Philippe Mateta ('82 )

Manchester City 4 - 1 West Ham
1-0 Vladimir Coufal ('10 , sjálfsmark)
2-0 Erling Haaland ('42 )
3-0 Erling Haaland ('55 )
4-0 Phil Foden ('58 )
4-1 Niclas Fullkrug ('71 )

Southampton 0 - 5 Brentford
0-1 Kevin Schade ('6 )
0-2 Bryan Mbeumo ('62 )
0-3 Bryan Mbeumo ('69 , víti)
0-4 Keane Lewis-Potter ('90 )
0-5 Yoane Wissa ('90 )
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner