Jerome Boateng, leikmaður Lyon í Frakklandi, er sagður hafa kýlt fyrrverandi kærustu sína og þannig neytt hana til að skrifa undir þöggunarsamning, en þetta kemur fram í gögnum frá þýsku miðlunum Kollektiv og Süddeutsche Zeitung.
Ofurfyrirsætan Kasia Lenhardt framdi sjálfsvíg í febrúar á síðasta ári, stuttu eftir að þau slitu sambandi sínu.
Boateng er ásakaður um að hafa beitt Lenhardt andlegu, líkamlegu og fjárhagslegu ofbeldi á meðan þau voru saman og meðal annars neytt hana til þess að skrifa undir þöggunarsamning.
Kollektiv og Süddeutsche Zeitung greina frá þessum ásökunum eftir ítarlega rannsókn en þar kemur fram að Lenhardt að hafi í fyrstu neitað að skrifa undir samninginn, en Boateng hafi kýlt hana og þannig þvingað hana til þess að skrifa undir samninginn.
Eins og áður kom fram svipti hún sig lífi stuttu eftir að þau hættu saman á síðasta ári en saksóknaraembættið í München hefur þegar hafið rannsókn á málinu og neita lögfræðingar Boateng að ræða það við þýska miðla.
Móðir Lenhardt segir að þöggunarsamningurinn hafi aðeins átt við um dóttur sína en ekki Boateng. Móðirin hefur þegar skilað inn sönnunargögnum með myndum af áverkum hennar og samtölum hennar við þýska varnarmanninn.
Lögfræðingar Boateng hafa alfarið neitað þessu og segja að Lenhardt hafi sjálf beðið um að skrifa undir samninginn. Stuttu eftir að hún framdi sjálfsmorð kom Boateng fram í viðtali við Bild þar sem hann sagði Lenhardt bæði drykkfellda og sakaði hana þá um fjárkúgun en miðillinn eyddi fréttinni stuttu síðar og baðst afsökunar á birtingunni.
Boateng var á síðasta ári dæmdur fyrir að líkamlegt ofbeldi gegn barnsmóður sinni. Það átti sér stað fyrir fjórum árum og var Boateng gert að greiða henni 1,8 milljónir evra.
Þjóðverjinn er í dag á mála hjá Lyon og hefur aðeins spilað einn leik á þessu tímabili en það var gegn Rennes í síðustu viku. Hann spilaði þá 76 landsleiki fyrir Þýskaland og var meðal annars í liðinu sem vann HM árið 2014.
Athugasemdir