Mörg félög hafa áhuga á Rashford - Fara Antony og Zirkzee á láni? - Undirbúa brottför Alonso - Arsenal skoðar að stækka Emirates
   þri 22. október 2024 09:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Vildu 100 milljónir í sumar en nú hangir starfið á bláþræði
Oliver Glasner.
Oliver Glasner.
Mynd: EPA
Eze hefur ekki fundið neinn takt á tímabilinu.
Eze hefur ekki fundið neinn takt á tímabilinu.
Mynd: EPA
Það er oft sagt að hlutirnir séu fljótir að breytast í fótboltanum og þannig er það svo sannarlega í tilviki Oliver Glasner, stjóra Crystal Palace.

Glasner kom með miklum hvelli inn hjá Palace á síðustu leiktíð. Liðið var það heitasta í ensku úrvalsdeildinni undir lok síðasta tímabils.

Þýska stórveldið Bayern München sýndi Glasner áhuga eftir innkomu hans hjá Palace og var tilbúið að borga 18 milljónir evra til að leysa hann undan samningi. Palace sendi móttilboð upp á 100 milljónir evra. Svo mikils mátu þeir Austurríkismanninn sem hafði áður stýrt Eintracht Frankfurt til sigurs í Evrópudeildinni.

Núna hins vegar, þá hangir starf Glasner á bláþræði. Hann er einn af líklegustu stjórunum í ensku deildinni til að missa starf sitt.

Palace tapaði 1-0 gegn Nottingham Forest í gær eftir mistök markvarðarins Dean Henderson.

„Oliver veit það að ef þú vinnur ekki leiki, þá eru góðar líkur á því að síminn þinn muni hringja. Það eru eigendurnir og þú ert látinn taka pokann þinn. Það er hluti af leiknum og hann veit það. Gengið hefur verið hræðilegt," sagði Tim Sherwood, fyrrum stjóri Aston Villa og Tottenham, eftir leikinn í gær.

„Þeir sakna leikmanna frá síðasta tímabili en það sem þá skortir aðallega er trú. Það er orðinn vani hjá þeim að tapa fótboltaleikjum."

Michael Olise er leikmaður sem Palace saknar mikið en hann gekk í raðir Bayern München síðasta sumar. Leikmenn eins og Adam Wharton, Ebere Eze og Jean-Philippe Mateta hafa þá ekki verið næstum því eins góðir og þeir voru á síðasta tímabili.
Athugasemdir