Stóru liðin á Íslandi búin að hafa samband
Það bendir margt til þess að Færeyingurinn Patrik Johannesen fari frá Keflavík í vetur. Patrik er samningsbundinn félaginu en nokkur félög hafa áhuga á honum. Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, staðfestir að Breiðablik hafi gert tvö tilboð í leikmanninn. Þá hefur verið greint frá því að KÍ Klaksvík í Færeyjum hafi áhuga sem og Valur.
Siggi Raggi er ekki vongóður um að halda Patrik innan raða Keflavíkur.
Siggi Raggi er ekki vongóður um að halda Patrik innan raða Keflavíkur.
„Nei ég er ekkert sérstaklega vongóður á það. Stóru liðin á Íslandi eru búin að hafa samband og gera tilboð í hann. Breiðablik er búið að gera tvisvar tilboð í hann og það eru fleiri lið sem hafa áhuga á honum. Það er erfitt fyrir Keflavík að halda sínum bestu leikmönnum. Við erum ekki komin á þann stað fjárhagslega sem klúbbur að geta haldið í þessa leikmenn. Þannig verður væntanlega raunin með Patrik að við fáum tilboð sem við getum ekki hafnað," sagði Siggi Raggi við Vísi eftir leikinn.
Hætta á því að bestu leikmennirnir hverfi á braut
Siggi Raggi ræddi einnig við Fótbolta.net eftir leikinn og talaði um sumarið og stöðu lykilmanna hjá félaginu.
„Við getum kannski fagnað (7. sætinu) eftir síðasta leikinn ef við eigum góðan leik þá. Við stefndum auðvitað á 7. sætið eftir að það varð ljóst að við yrðum í neðri hlutanum í úrslitakeppninni. Við vorum afskaplega stutt frá því að vera í efri hlutanum og það væri eðlilegt skref fyrir Keflavík að stefna á topp sex á næsta ári. Vonandi tekst okkur það. Það vantar kannski örlítið meira fjármagn til þess að keppa við bestu liðin og hættan er sú að okkar bestu menn hverfi á braut - þeir verði keyptir af stóru liðunum. Það er t.d. byrjað að bjóða í Patrik Johannesen."
„Við þurfum alltaf að gera okkar 'recruiting' fyrir næsta ár mjög vel og reyna finna peninga til að fengið sterka leikmenn til liðs við okkur. Tímabilið hjá Keflavík hefur verið ofboðslega flott, besta tímabilið hjá Keflavík síðan 2010 og fyrir þremur árum síðan vorum við í 5. sæti í næstefstu deild - 17. besta lið landsins. Núna erum við 7. besta og ættum að stefna á að vera í topp sex á næsta ári að mínu mati."
„Þá finnum við næsta Patrik Johannesen og næsta Adam Pálsson"
Hvað ætlar Keflavík að gera ef félagið missir Patrik og Adam Ægi Pálsson sem er á láni frá Víkingi?
Patrik hefur skorað tíu mörk á tímabilinu og Adam hefur skorað sjö ásamt því að leggja upp helling af mörkum.
„Þá finnum við næsta Patrik Johannesen og næsta Adam Pálsson. Við leituðum vel í vetur og fundum góða leikmenn sem að hafa staðið sig frábærlega og það hafa verið fleiri sem hafa staðið sig mjög vel. Heilt yfir hefur liðið bara staðið sig mjög vel, svekkjandi hvað við vorum ofboðslega nálægt topp 6 það hefði verið gaman að vera í efri úrslitakeppninni en það er eitthvað til að stefna á, á næsta ári. Við þurfum bara að finna næstu leikmenn sem að koma inn ef að þessir fara en vonandi tekst okkur að semja við einhverja af þeim," sagði Siggi Raggi.
Leikmenn sem eru að verða samningslausir hjá Keflavík:
Dani Hatakka 1994 15.11.2022
Sindri Kristinn Ólafsson 1997 31.12.2022
Joey Gibbs 1992 31.12.2022
Kian Williams 2000 31.12.2022
Ingimundur Aron Guðnason 1999 31.12.2022
Edon Osmani 2000 16.10.2022
Adam Árni Róbertsson 1999 31.12.2022
Rúnar Þór Sigurgeirsson 1999 31.12.2022
Sjá einnig:
Hvað gerir Sindri Kristinn?
Rúnar Þór gengur til liðs við Öster eftir tímabilið
Athugasemdir