Real Madrid vill Enzo og Huijsen - Liverpool, Arsenal og Man Utd hafa áhuga á Gibbs-White - Sane orðaður við Liverpool
   mán 24. október 2022 22:03
Ívan Guðjón Baldursson
Gary O'Neil reifst við dómarann að leikslokum
West Ham og Bournemouth áttust við í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni og unnu heimamenn 2-0 á London Stadium.

Kurt Zouma kom West Ham yfir undir lok fyrri hálfleiks en boltinn fór í hendi samherja hans, Said Benrahma, í aðdragandanum.

Í uppbótartíma síðari hálfleiks innsiglaði Said Benrahma sigur heimamanna með marki úr vítaspyrnu eftir að boltinn hafði farið í hendi varnarmanns af stuttu færi.

„Auðvitað er þetta pirrandi, okkur líður eins og þessar ákvarðanir fari alltaf á móti okkur. Boltinn fór í höndina hans í aðdragandanum og það er mjög pirrandi. Svo fáum við dæmda hendi á okkur í seinni hálfleik en það var líka alveg óvart og af stuttu færi," sagði Chris Mepham, varnarmaður Bournemouth, að leikslokum.

Gary O'Neil, bráðabirgðastjóri Bournemouth, var einnig ósáttur eftir leikinn.

„Í aðdraganda marksins var brot og svo hendi. Flynn Downes hindraði Senesi án þess að vera með augun á boltanum og svo var þetta augljós hendi á Said Benrahma. Leikmaðurinn færir höndina í átt að boltanum, ég skil ekki hvernig þeir dæma ekki á þetta," sagði O'Neil.

„Þetta kemur mér samt ekki óvart því samræmið hefur verið hlægilegt hingað til. Síðan ég tók við taumunum hafa verið tíu VAR athuganir og ekki ein þeirra hefur fallið með okkur."

O'Neil ræddi við dómarann að leikslokum og spurði hann meðal annars um vítaspyrnudóminn í uppbótartíma.

„Við erum ósammála þar því hann segir að Zemura sé með hendurnar í óeðlilegri stöðu. Hann er að tækla og handleggirnir eru á leið niður, þetta er mjög eðlileg líkamsstaða miðað við aðstæður.

„Til samanburðar segir hann að handleggir Benrahma hafi verið í eðlilegri stöðu í marki West Ham en ég er ósammála því. Það er ekki eðlilegt að hoppa með hendur niður með síðum sem fara svo upp í átt að boltanum.

„Ofan á þetta allt átti að vera hendi á Ben Johnson en ég á eftir að sjá það atvik aftur."


Athugasemdir
banner
banner