Kapphlaupið um enska miðjumanninn Jude Bellingham er þegar farið af stað en hann verður ekki falur fyrr en næsta sumar. Öll stærstu félagslið Evrópu hafa áhuga á honum og eru Englandsmeistarar Manchester City engin undantekning.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Man City, hefur miklar mætur á Bellingham og fór ekki leynt með aðdáun sína þegar hann var spurður út í táninginn á fréttamannafundi fyrir viðureign City gegn Borussia Dortmund sem fer fram annað kvöld.
19 ára Bellingham er algjör lykilmaður hjá Dortmund og þegar orðinn annar varafyrirliði félagsins eftir Marco Reus og Mats Hummels. Hann er öflugur fyrir framan markið og hefur skorað í síðustu tveimur viðureignum gegn Man City.
„Allir þekkja gæðin sem Jude Bellingham býr yfir. Hann er fullkominn leikmaður, með enga augljósa veikleika. Hann er ótrúlega þroskaður leikmaður og gerir litlu hlutina hárrétt eins og hann hafi áratuga langa reynslu á bakinu," sagði Guardiola.
„Ég held að Borussia Dortmund sé fullkomið félag fyrir unga leikmenn eins og hann. Ef hann hefði verið eftir hjá félagi eins og City, United, Chelsea, Liverpool, Arsenal eða Tottenham þá fengi hann kannski ekki sama mínútufjölda og hjá Dortmund.
„Það mikilvægasta fyrir unga leikmenn er að spila fótbolta. Það er langbesta leiðin til að læra."