Íslenska landsliðskonan Guðrún Arnardóttir varð í kvöld sænskur meistari með Rosengård annað árið í röð eftir að Linköping gerði jafntefli við Kalmar.
Guðrún spilaði allan leikinn í vörn Rosengård í gær er liðið lagði Kristianstad, 2-0.
Það kom því upp sú staða að Guðrún gæti fagnað titlinum í sófanum í kvöld því þá mættust Linköping og Kalmar.
Linköping átti tölfræðilega möguleika á að veita Rosengård samkeppni en til þess þurfti það að vinna Kalmar. Það leit ágætilega út eða þangað til sautján mínútur voru eftir þá jafnaði Kalmar metin og tryggði sér stig.
Rosengård er því meistari annað árið í röð þegar tvær umferðir eru eftir en liðið er með 60 stig, sjö stigum meira en Häcken og Linköping. Þetta er í þrettánda sinn sem félagið vinnur titilinn í sögunni.
Guðrún hefur spilað mikilvæga rullu í vörn Rosengård frá því hún kom frá Djurgården á síðasta ári
Athugasemdir