Real Madrid vill Enzo og Huijsen - Liverpool, Arsenal og Man Utd hafa áhuga á Gibbs-White - Sane orðaður við Liverpool
banner
   mán 24. október 2022 19:52
Ívan Guðjón Baldursson
Kristófer horfði á Kristian gera jafntefli - Hörður með fullt hús
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Heimasíða Panathinaikos

Kristian Nökkvi Hlynsson lék allan leikinn er Jong Ajax, unglinga- og varalið Ajax, gerði jafntefli við Venlo í hollensku B-deildinni.


Heimamenn í Amsterdam voru betri í fyrri hálfleik en gestirnir tóku forystuna gegn gangi leiksins. Danski táningurinn Christian Rasmussen jafnaði þó tveimur mínútum síðar og var staðan 1-1 í leikhlé.

Síðari hálfleikurinn var jafnari. Hann var tíðindalítill og voru fleiri mörk ekki skoruð. Jong Ajax er með 16 stig eftir 12 umferðir á meðan Venlo er með 18 stig og situr í umspilssæti.

Kristófer Ingi Kristinsson var ónotaður varamaður hjá Venlo.

Jong Ajax 1 - 1 Venlo

Guðmundur Þórarinsson var þá í byrjunarliðinu hjá OFI Crete sem gerði markalaust jafntefli við Lamia í gríska boltanum.

Gummi spilaði fyrstu 68 mínúturnar í vinstri bakverði og var þetta hans annar byrjunarliðsleikur í röð.

OFI Crete hefur farið illa af stað í haust og er aðeins með 6 stig eftir 9 umferðir.

Hörður Björgvin Magnússon og félagar í Panathinaikos eru á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir níu umferðir. Þeir unnu 1-0 gegn Aris í gær með sigurmarki í uppbótartíma. 

Hörður Björgvin lék allan leikinn í hjarta varnarinnar og er að festa sig í sessi í byrjunarliðinu.

Sverrir Ingi Ingason lék að lokum allan leikinn þegar PAOK lenti tveimur mörkum undir gegn Asteras Tripolis á sínum eigin heimavelli.

PAOK náði þó að koma til baka og urðu lokatölur 2-2. PAOK hefur farið hægt af stað miðað við sín viðmið og er í fimmta sæti, með 16 stig eftir 9 umferðir.

OFI Crete 0 - 0 Lamia

Panathinaikos 1 - 0 Aris Thessaloniki

PAOK 2 - 2 Asteras Tripolis


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner