Valgeir Lunddal Friðriksson og félagar hans í Häcken eru aðeins einu stigi frá því að vinna sænsku úrvalsdeildina en þetta varð ljóst eftir 2-1 sigur liðsins á Malmö í gær.
Valgeir var í byrjunarliði Häcken í gær og spilaði allan leikinn en hann hefur lykilmaður á þessu tímabili og spilað 24 leiki af 28 leikjum liðsins.
Eftir sigur liðsins á Malmö situr liðið með sex stiga forystu á toppnum þegar tvær umferðir eru eftir. Djurgården, sem er í öðru sæti, þarf að treysta á að Häcken tapi fyrir bæði Gautaborg og Norrköping til þess að eiga einhvern möguleika.
Häcken hefur aldrei unnið sænsku deildina í 82 ára sögu félagsins en liðið hafnaði í öðru sæti árið 2012 og er það besti árangur liðsins. Nú er liðið einu stigi frá því að skrifa sig í sögubækurnar.
Hákon Rafn Valdimarsson og Sveinn Aron Guðjohnsen voru báðir í byrjunarliði Elfsborg sem lagði Hammarby, 2-1. Sveinn Aron fór af velli á 78. mínútu. Elfsborg er í 6. sæti með 43 stig.
Sirius og Kalmar gerðu markalaust jafntefli í kvöld. Aron Bjarnason var í byrjunarliði Sirius á meðan Davíð Kristján Ólafsson byrjaði í liði Kalmar.
Davíð fór af velli á 82. mínútu á meðan Aron fór a velli fimm mínútum síðar en Óli Valur Ómarsson kom inn í hans stað. Kalmar er í 4. sæti deildarinnar með 48 stig og í harðri baráttu um Evrópusæti. Sirius er í 12. sæti með 32 stig.
Ari Freyr Skúlason og Arnór Ingvi Traustason spiluðu í 1-1 jafntefli Norrköping gegn Värnamo. Arnór fór af velli á 77. mínútu leiksins en Ari spilaði allan leikinn. Andri Lucas Guðjohnsen sat allan tímann á bekknum og þá var Arnór Sigurðsson ekki með í dag.
Adam Ingi Benediktsson sat allan tímann á varamannabekknum hjá Gautaborg sem vann AIK, 1-0. Gautaborg er í 8. sæti með 42 stig.
Athugasemdir