Tímavél sem birtist upphaflega 2011
Skallagrímur stoppaði ekki lengi við á meðal þeirra bestu. Eftir tap gegn Fram í 16. umferð var ljóst að fall var niðurstaðan eins og sjá má á þessari grein í DV.
Það er óhætt að segja að ýmislegt hafi gengið á í fóboltanum í Borgarnesi á tíunda áratug síðustu aldar og rétt eftir aldamót. Árið 1990 komst Skallagrímur upp úr neðstu deild og sá uppgangur skilaði liðinu á endanum upp í úrvalsdeild árið 1997. Liðið féll hins vegar jafn hratt aftur niður í neðstu deild en liðið féll þrisvar sinnum niður um deild á árunum 1998-2002.
Valdimar Kristmunds Sigurðsson, næstmarkahæsti leikmaður Íslandsmótsins frá upphafi, lék með Skallagrími frá 1989-2009 fyrir utan tvö stutt hlé árið 1999 og 2005. Valdimar tók því þátt í upp og niðursveiflu Skallagríms á sínum tíma.
„Það er mjög skemmtilegt að hafa tekið þátt í þessu. Maður hefur kynnst mörgum þarna og maður er ekki að svekkja sig á neinu. Þetta var mjög skemmtilegur tími,“ sagði Valdimar sem er uppalinn hjá ÍA en hann ákvað að fara í Skallagrím fljótlega eftir 2.flokk.
„Við vorum fjórir Skagamenn sem fórum með Sigga Donna (Sigurði Halldórssyni) þegar hann tók fyrst við Skallagrími 1989. Við höfðum rætt það félagarnir að það væri gaman að spila úti á landi eitt sumar en ég fór ekki lengra en í Borgarnes,“ sagði Valdimar við Fótbolta.net.
Borgnesingar voru í næstefstu deild árið 1986 en féllu þá með markatöluna 4-99. Í síðustu umferðinni gáfu þeir leikinn til að fara ekki yfir 100 mörk því markatalan var fyrir leikinn 4-96. Árið eftir féllu Skallagrímsmenn aftur og þá niður í neðstu deild. Árið 1990 byrjuðu hjólin hins vegar að snúast. Hér að neðan má sjá lýsingu Valdimars á þessum árum í fótboltanum í Borgarnesi.
1990: 2.sæti í D-deild (Upp)
Siggi Donna var að þjálfa og við fórum í 6-liða úrslitakeppni í 3. deildinni. Magni vann riðilinn og komst upp en við þurftum jafntefli í síðasta leik okkar í Borgarnesi til að tryggja okkur upp. Við mættum Hvöt og það var 1-0 í hálfleik en í síðari hálfleik opnuðust allar flóðgáttir, við skoruðum átta mörk og fórum upp.
1991: 5. sæti í C-deild
Okkur gekk sæmilega þetta árið og vorum um miðja deild. Siggi Donna hætti sem þjálfari eftir tímabilið.
1992: 4. sæti í C-deild
Höddi Jó, pabbi Jóhannesar Harðarsonar, tók við liðinu og átti eftir að stýra okkur næstu tvö árin. 1992 byrjuðum við mjög illa en unnum minnir mig 7 leiki af 9 í seinni umferðinni og enduðum í 4. sæti.
1993: 7. Sæti í C-deild
Þarna björguðum við okkur frá falli á ævintýralegan hátt í lokaumferðinni. Við lékum við Víði Garði og urðum að vinna en undir lokin vorum við 2-1 undir. Ég tek hornspyrnu og spyr línuvörðinn: Hvað er mikið eftir? Hann segir tvær mínútur, ég tek hornspyrnuna og við skorum með skalla og jöfnum 2-2.
Þeir tóku miðjuna, við unnum boltann, ég komst upp að endamörkum og gaf fyrir. Finnur Thorlacius fékk boltann, skaut, boltinn fór aftur út og hann skoraði. Við unnum þennan leik og héldum okkur uppi. Ef þetta hefði ekki gerst á þessari einu og hálfu mínútu þá hefði Skallagrímur aldrei farið upp í úrvalsdeild.
1994: 1.sæti í C-deild (Upp)
Siggi Donna tók aftur við og var með fínan mannskap í höndunum. Við vorum nánast allan tímann í forystusæti og tókum dolluna eftir hörkuleik við Völsung, við höfum tvisvar farið upp um deild eftir síðasta leik á Húsavík.
1995: 5.sæti í B-deild
Þarna var kominn góður kjarni í liðið, Daði Lárusson var til að mynda í markinu og Haraldur Hinriksson og Hjörtur Júlíus Hjartarson voru eins og árið áður líka í liðinu. Við vorum fyrsta liðið til að fá Brasilíumann til að spila með okkur. Hann hét Junior og hafði verið í skóla í USA með Gunnari Magnúsi Jónssyni og kom með honum til Íslands. Hann var hörkuhafsent og ansi harður í horn að taka en mikill mömmustrákur og þoldi ekki íslenska veðrið þetta sumarið. Hann var þunglyndur allt sumarið því það var alltaf rigning og rok og Gunnar var hálfgerður sálfræðingur fyrir hann og kappinn entist ekki allt tímabilið.
1996: 2. sæti í B-deild (Upp)
Siggi Donna hætti sem þjálfari og það fóru fimm sterkir leikmenn. Menn bjuggust ekki við neinu en við náum að byrja mótið vel og þetta small saman. Ólafur Jóhannesson, fyrrum landsliðsþjálfari, var þjálfari okkar og hann var nett kærulaus þetta sumar eins og hann á til. Hann náði góðum anda í hópinn og það var létt yfir þessu. Við förum langt á sveitamennskunni þetta sumarið, það voru allir mjög hissa á þessu góða gengi okkar. Við vorum við toppinn allt sumarið og fyrir síðasta leik þurftum við sigur á Húsavík til að fara upp. Við lentum 2-0 undir en minnkuðum muninn undir lok fyrri hálfleiks. Við jöfnuðum eftir ca 70 mínútur og undir lokin náði Sindri Grétarsson að pota inn tveimur mörkum. Það var mjög sætt að vera allt í einu komnir í úrvalsdeild þegar enginn bjóst við neinu. Það hefur aldrei verið rosaleg stemmning fyrir fótbolta í Borgarnesi, körfuboltinn hefur alltaf verið númer 1, 2 og 3. Leiknum var lýst í útvarpinu í Borgarnesi en það voru fáir stuðningsmenn sem mættu með okkur norður. Við vorum ekkert að hafa áhyggjur af því það var svo gaman hjá okkur fyrir norðan.
1997: 9. sæti í A-deild
Við fengum ekkert rosalega styrkingu fyrir mót. Við fengum einn Færeying og vinur hans kom með honum, einn úr stjórninni keyrði í tíu tíma til að ná í þá í Norrænu en þetta var hálfgert djók og þeir fóru eftir þrjár vikur. Fyrir mótið var spáð því að við myndum slá öll met sem hægt er að slá í úrvalsdeild: Fá fæst stig frá upphafi, skora fæst mörk og fá flest á okkur. Stjarnan endaði með níu stig þetta sumar en við enduðum með fimmtán og hefðum alveg getað náð fleiri stigum, það voru margir leikir sem við töpuðum tæpt. Við unnum Leiftur 3-0 í fyrsta leik í úrvalsdeildinni fyrir framan 1000 manns. Í næstu leikjum rákumst við aðeins á vegg og við unnum ekki leik fyrr en við unnum Keflavík 2-1 á útivelli. Það var öðruvísi stemmning hjá Óla Jó þetta sumarið. Hann var ekki lengur að vinna á daginn heldur var hann á golfvellinum og kom síðan að þjálfa okkur um kvöldið. Það var meira reitur og spil þetta sumar og það fúnkeraði ekki alveg enda er auðveldara að þjálfa lið sem gengur vel heldur en lið sem er í basli. Ég veit ekki hvort að það hefði hjálpað ef hann hefði verið rekinn um mitt sumar og nýr þjálfari tekið við, maður veit það ekki.
1998: 5.sæti í B-deild
Þarna var Siggi Donna orðinn þjálfari aftur og hann ætlaði strax aftur upp í úrvalsdeild. Það gekk ekki alveg eftir og honum var sagt upp þegar voru nokkrir leikir eftir af tímabilinu. Við töpuðum 5-1 á móti Breiðabliki heima og hann hafði sagt fyrir leik við stjórnina að hann væri hættur ef við myndum tapa. Svo hætti hann ekkert og þá var honum sagt upp. Óli Jó tók síðustu leikina á léttum í nótunum og við enduðum í 5.sæti.
1999: 6. sæti í B-deild
Þarna er ég ekki til frásagnar, ég flutti í bæinn árið 1997 og hafði verið að keyra á milli en þarna ákvað ég að breyta til og spila með Fram. Skallagrímur með Óskar Ingimundar sem þjálfara byrjaði illa en komst síðan á skrið. 1. deildin þetta árið var ótrúleg en fyrir lokaumferðina gat Skallagrímur bæði fallið og farið upp deild. Liðið tapaði á móti Fylki en hélt sæti sínu.
2000: 10. sæti í B-deild
Allar stjörnurnar fóru í burtu eftir 1999 og Óli Þór Magnússon tók við sem þjálfari. Við vorum með lítinn mannskap og Skallagrímur féll úr fyrstu deildinni, við vorum í brasi allan tímann og náðum okkur aldrei á strik. Ég sneri aftur eftir skamma dvöl í Safamýrinni en spilaði ekki marga leiki vegna meiðsla.
2001: 6. sæti í C-deild Það var ákveðið að stokka upp spilin, ég tók við þjálfuninni og það var ákveðið að hafa nánast bara heimamenn í liðinu. Auddi Blö var líka þarna, hann hélt stuðinu uppi og stóð sig ágætlega. Við byrjuðum illa en síðan gekk þetta þokkalega og við enduðum í sjötta sæti.
2002: 10. sæti í C-deild Fyrir þetta tímabil fóru heimamennirnir, nánast allt liðið flutti í bæinn þar sem menn voru í skóla eða í einhverju öðru. Ég var með nánast nýtt lið í höndunum og var að reyna að smala gömlum Skallagrímsjálkum saman en það gekk ekki vel. Við skitum á okkur og fengum einungis fjögur stig. Eini sigurleikurinn var gegn Leikni í Breiðholtinu 3-2 í næstsíðustu umferðinni og þeir féllu síðan með okkur.
2003-2009:
Eftir þetta hefur Skallagrímur verið í neðstu deild. Við vorum reyndar nálægt því að fara upp árið 2003 með Óla Adolfs og aftur árið 2008 þegar Jakob Hallgeirs var með okkur en það vantaði herslumuninn í bæði skiptin. Árið 2009 tók ég við þjálfun Skallagríms á nýjan leik og gekk sæmilega en maður fann fyrir því að metnaðurinn var að minnka og erfitt stundum að ná í hóp. Árið eftir var Garðar Jónsson orðinn þjálfari, maður kíkti við á æfingar af og til en maður fann það að nærveru manns var ekki óskað og það var hálfleiðinlegur endir á þessu öllu saman.
Síðasta sumar var ég þjálfari og leikmaður Kára á Akranesi og undir lok móts kom ég á minn gamla heimavöll að keppa við Skallagrímsmenn. Það var hálffyndið að heyra fyrrverandi samherja og stjórnarmenn kalla mig Júdas í hvert skipti sem ég fékk boltann. En svona er fótboltinn stundum.
Eftir 20 ár í Borgarnesi vil ég þakka öllum þeim leikmönnum sem ég spilaði með undir merkjum Skallagríms og lögðu á sig ýmislegt til að koma félaginu upp í efstu deild og svo beinustu leið niður aftur!!! Ekki má gleyma heldur öllum þeim þjálfurum og stjórnarmönnum sem hafa stýrt liðinu í gegnum tíðina, kennt manni margt og sumir ekkert eins og gengur en ávallt með mikinn metnað fyrir hönd félagsins. Þetta er búið að vera mikið ævintýri og vonandi að Skallagrímur rísi upp úr öskustónni á næstu árum.
Ef lesendur hafa ábendingar um áhugavert efni í "Tímavélina" má senda tölvupóst á [email protected]
Sjá einnig:
Eldra efni í Tímavélinni