Liverpool veit verðið á Kerkez - City vill Saliba og Reijnders - Saka í viðræður um nýjan samning
   sun 30. mars 2025 14:13
Brynjar Ingi Erluson
Draumabyrjun Ara sem bjargaði stigi fyrir Elfsborg - SonderjyskE kom sér upp úr fallsæti
Ari kom Elfsborg til bjargar í fyrsta leik sínum fyrir félagið
Ari kom Elfsborg til bjargar í fyrsta leik sínum fyrir félagið
Mynd: Elfsborg
Júlíus var í byrjunarliði Elfsborg
Júlíus var í byrjunarliði Elfsborg
Mynd: Elfsborg
Ari Sigurpálsson, sem gekk í raðir Elfsborg frá Víkingi R. á dögunum, skoraði í fyrsta leik sínum með sænska félaginu og tryggði því stig í 2-2 jafnteflinu gegn Mjällby í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar í dag.

Elfsborg gekk frá kaupum á Ara fyrir ellefu dögum síðan og var hann í hóp í fyrsta sinn í dag.

Liðið var 2-1 undir þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir en þá var Ari kynntur til leiks og aðeins þremur mínútum síðar jafnaði hann metin.

Fyrirgjöfin kom frá vinstri og í boga á fjærstöng þar sem Ari kastaði sér á boltann og stangaði honum í netið. Draumabyrjun hjá Ara og stigið tryggt.

Júlíus Magnússon spilaði allan leikinn á miðsvæði Elfsborg, en hann var einnig að leika sinn fyrsta deildarleik eftir að hafa komið til félagsins frá Fredrikstad.



Kolbeinn Þórðarson spilaði síðari hálfleikinn er Gautaborg tapaði fyrir Hammarby, 4-0, á útivelli.

Íslendingar komu við sögu í fallriðli dönsku úrvalsdeildarinnar en gengið var misjafnt þar. Sævar Atli Magnússon byrjaði í 2-1 tapi Lyngby gegn Vejle á meðan þeir Daníel Leó Grétarsson og Kristall Máni Ingason byrjuðu í 2-1 sigri SonderjyskE á Silkeborg.

SonderjyskE komst upp úr fallsæti með sigrinum og upp fyrir Lyngby.

Hólmbert Aron Friðjónsson byrjaði í 1-1 jafntefli Preussen Münster gegn Braunschweig í þýsku B-deildinni. Hólmbert nældi sér í gult spjald í leiknum og er því kominn í leikbann. Hann missir því af Íslendingaslagnum gegn Fortuna Düsseldorf í næstu umferð.

Münster er í 15. sæti með 27 stig og í harðri baráttu um að halda sæti sínu í deildinni.
Athugasemdir
banner
banner