Preston NE 0 - 3 Aston Villa
0-1 Marcus Rashford ('58 )
0-2 Marcus Rashford ('63 , víti)
0-3 Jacob Ramsey ('71 )
0-1 Marcus Rashford ('58 )
0-2 Marcus Rashford ('63 , víti)
0-3 Jacob Ramsey ('71 )
Aston Villa er komið í undanúrslit enska bikarsins eftir að hafa unnið 3-0 sigur á Preston á Deepdale-leikvanginum í Preston í dag. Marcus Rashford opnaði markareikninginn með Villa með tveimur mörkum áður en Jacob Ramsey gerði út um leikinn.
Preston mætti gríðarlega skipulagt til leiks. Liðið spilaði aggresífa pressu gegn sterku liði Villa og gekk það upp stærstan hluta fyrri hálfleiks.
B-deildarliðið fékk meira að segja besta færi fyrri hálfleiksins er Robbie Brady kom með boltann inn í teig. Emiliano Martínez kýldi boltann frá en aftur skilaði boltinn sér inn á teiginn og á íslenska landlsiðsmanninn Stefán Teit Þórðarson sem var í algeru dauðafæri en skalli hans framhjá markinu.
Staðan markalaus í hálfleik og gátu Preston-menn verið nokkuð sáttir með það en gerðu mögulega mistök með að pressa Villa-menn hátt uppi í byrjun síðari.
Marcus Rashford kom sér í ákjósanlegt færi á 54. mínútu en boltinn beint á David Cornell í markinu en Rashford bætti upp fyrir það fjórum mínútum síðar er hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu Lucas Digne. Fyrsta mark hans í treyju Villa.
Fimm mínútum síðar fengu Villa-menn vítaspyrnu eftir að Andrew Hughes steig á löppina á Morgan Rogers. Rashford var sendur á punktinn og skoraði hann af miklu öryggi og kom Villa í tveggja marka forystu.
Preston hafði ekki tapað á heimavelli sínum síðan gegn Bristol City í nóvember en Jacob Ramsey var maðurinn sem batt enda á skrið þeirra með góðu marki eftir aukaspyrnu Digne þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka.
Farseðill Aston Villa á Wembley tryggður og liðið komið í undanúrslit en dregið verður eftir örskamma stund. Það verður þó að hrósa Preston fyrir þeirra spilamennsku, en í dag mætti liðið ofjarli sínum og er úr leik.
Athugasemdir