Martyn Waghorn meiddist í leik með U21 árs landsliði Englands gegn Íslandi á Laugardalsvelli árið 2011 en hér má sjá mynd af honum úr umræddum leik
Englendingurinn Martyn Waghorn hefur tekið fram skóna aðeins tæpum tveimur mánuðum eftir að hafa lagt þá á hilluna, en hann ætlar að hjálpa Derby County í fallbaráttunni í B-deildinni
Waghorn, sem er 35 ára gamall, greindi frá því í febrúar að skórnir væru komnir upp í hillu eftir ágætlega flottan feril.
Hann lék síðast með Northampton í C-deildinni en var lengst af í ensku B-deildinni þar sem hann lék með félögum á borð við Coventry, Derby, Ipswich, Leicester, Millwall og Wigan ásamt því að hafa spilað með Rangers í Skotlandi.
Á síðasta tímabili skoraði hann 7 mörk í 25 leikjum með Derby er liðið komst upp úr C-deildinni og lék síðan átta leiki með Northampton í seinni hluta þessa tímabils áður en hann kallaði þetta gott.
Sky Sports segir að Waghorn sé byrjaður að æfa aftur með Derby og er John Eustace, stjóri Derby, sannfærður um að reynsla, hvatningarhæfileiki og þekking hans í fallbaráttu gæti reynst liðinu dýrmæt.
Í augnablikinu er ekki ákveðið hvort hann verði skráður í hópinn fyrir síðustu átta leiki tímabilsins en það er alls ekki ómögulegt. Derby er í 22. sæti með 38 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti.
Waghorn hefur spilað 527 leiki og skorað 125 mörk í atvinnumennsku og á þá 5 landsleiki og 2 mörk að baki með U21 árs landsliði Englands.
Athugasemdir