Leikmaður 15. umferðar: Björn Metúsalem Aðalsteinsson (Hamar)
„Sigurinn var kannski ekki mjög óvæntur í ljósi leiksins á undan þegar við unnum Aftureldingu 4-0," segir Björn Metúsalem Aðalsteinsson, markvörður Hamars í Hveragerði. Björn er leikmaður umferðarinnar í 2. deild karla fyrir frammistöðu sína í 3-1 útisigri á Reyni Sandgerði.
Hamar náði með sigrinum að komast fimm stigum frá fallsæti.
„Við fengum góðan liðsstyrk frá Selfossi í glugganum sem hefur haft jákvæð áhrif á spilið og sóknarleikinn hjá okkur. Sjálfstraustið er orðið meira. Fyrri hluta tímabils var óheppnin að elta okkur og við vorum að klúðra hlutunum á lokamínútum."
„Leikurinn í Sandgerði var hörkuleikur á báða bóga. Það var nóg að gera fyrir mig í leiknum og gott að geta hjálpað liðinu. Mér finnst alltaf gaman að fara í Sandgerði, þetta er hörkuflottur völlur og gaman að ná loksins að vinna þarna," segir Björn.
„Með þessum sigri náðum við að kúpla okkur út úr botnbaráttunni sem var númer eitt, tvö og þrjú eftir þessa byrjun hjá okkur. Nú er bara að reyna að klifra upp töfluna."
Salih Heimir Porca tók við liðinu fyrir tímabilið.
„Í byrjun var hikst á okkur, hann kom með nýjar áherslur. Hjá Hamri er alltaf verið að búa til nýtt lið á hverju ári enda er þetta meira og minna samansafn af strákum úr bænum. Það hefur verið að týnast úr liðinu, Porca hefur sínar hugmyndir en ef menn sýna þolinmæði og læra inn á þetta þá fer þetta að koma heim og saman."
Björn er sjálfur á sínu fjórða tímabili í Hamri en hann er þó búsettur í bænum.
„Ég kom fyrst á láni frá Fylki 2009 og svo gekk mér vel á öðru tímabili og ákvað að halda áfram þarna. Hveragerði er bara úthverfi Reykjavíkur, þetta er enginn akstur í mínum huga. Þetta er heimilislegur klúbbur og mjög gaman að vera þarna."
Sjá einnig:
Leikmaður 14. umferðar - Davíð Birgisson (KV)
Leikmaður 13. umferðar - Nenad Zivanovic (KF)
Leikmaður 12. umferðar - Sölvi Víðisson (HK)
Leikmaður 11. umferðar - Halldór Bogason (KV)
Leikmaður 10. umferðar - Dejan Pesic (Völsungur)
Leikmaður 9. umferðar - Helgi Ármannsson (KFR)
Leikmaður 8. umferðar - Þórður Birgisson (KF)
Leikmaður 7. umferðar - Rafn Markús Vilbergsson (Njarðvík)
Leikmaður 6. umferðar - Magnús Már Einarsson (Afturelding)
Leikmaður 5. umferðar - Elvar Freyr Arnþórsson (HK)
Leikmaður 4. umferðar - Sigurjón Fannar Sigurðsson (KF)
Leikmaður 3. umferðar - Bessi Víðisson (Dalvík/Reyni)
Leikmaður 2. umferðar - Brynjar Orri Bjarnason (KV)
Leikmaður 1. umferðar - Grétar Hjartarson (Reynir)
Athugasemdir