Árni Vilhjálmsson er líklega á leið í úrvalsdeildina í Úkraínu á nýjan leik en þetta staðfesti hann í samtali við Fótbolta.net í dag.
Hinn 25 ára gamli Árni hefur verið án félags undanfarnar vikur eftir að hann rifti samningi sínum við Termalica Nieciecza í Póllandi.
Fyrr á þessu ári var Árni á láni hjá Chornomorets Odesa í Úkraínu en hann skoraði sjö mörk í tólf leikjum í úrvalsdeildinni þar í landi og vakti athygli fyrir frammistöðu sína. Nú er líklegt að hann fari aftur til Úkraínu.
„Ég er að tala við lið í Úkraínu núna sem ég mun að öllum líkindum skrifa undir hjá. Ég get ekki sagt nafnið á liðinu en ef allt er eðlilegt þá ætti ég að skrifa undir um næstu helgi hjá þeim. Ég flyg út í næstu viku og fer í læknisskoðun," sagði Árni við Fótbolta.net í dag.
Árni var í síðustu viku í Englandi þar sem hann átti í viðræðum við félag í ensku C-deildinni en þær viðræður gengu ekki upp.
Athugasemdir