Sóknarmaðurinn Eiður Gauti Sæbjörnsson verður í mjög stóru hlutverki hjá KR á komandi tímabili. Þessi stóri og stæðilegi leikmaður kom frá HK og stuðningsmenn KR eru spenntir fyrir honum á komandi tímabili.
„Eiður er í rauninni eini hreinræktaði 'strækerinn' í þessum hópi, honum er ætlað að byrja alla leiki og skora mörkin. Þetta veltur mjög mikið á því hvernig hann verður," segir íþróttafréttamaðurinn og KR-ingurinn Valur Páll Eiríksson í Niðurtalningunni þar sem hitað er upp fyrir tímabilið.
„Hann hefur byrjað mjög vel, skorað og skorað á undirbúningstímabilinu. Maður er mjög spenntur og ég verð á bakinu á honum í vinnunni," segir Snorri Sigurðsson, formaður KR klúbbsins og samstarfsfélagi Eiðs.
„Hann var að forgangsraða öðrum hlutum yfir fótboltann lengi vel en það er margt meira í hann spunnið en að vera leikmaður Ýmis í fimmtu deild," segir Valur en ferill Eiðs er áhugaverður, hann var lengi að leika sér í neðri deildunum með Ými - og raðaði þar inn mörkum - áður en hann tók skrefið upp í HK í fyrra.
Athugasemdir