Þorvaldur Makan Sigurbjörnsson sneri óvænt aftur í fótboltann í dag er hann gekk í raðir Vals eftir að hafa tekið ákvörðun um að hætta í fótbolta í júlí mánuði 2004 er hann lék með Fram.
Hann hafði þá verið með mikinn höfuðverk í nokkrar vikur og eftir rannsóknir lækna kom í ljós að æðarnar sem lágu í kringum vinstra gagnaugað voru skaddaðar.
Þetta varð til þess að ef hann fékk lítið höfuðhögg eins og við það að skalla bolta missti hann mátt í hönd og löpp og fékk í kjölfarið gríðarlegan höfuðverk sem leiddi til þess á endanum leið yfir hann.
En í dag er hann orðinn heill af þessum meiðslum og í samtali við Fótbolta.net í dag sagði hann: ,,,,Þessi vefur sem á að verja heilahvelið er gróinn saman svo ég er bara á sömu áhættu og hver annar leikmaður."
En eftir langa fjarveru frá Fótboltanum er Þorvaldur ekki í neinu leikformi en er nú að hefja æfingar með Val og enginn vafi að hann mun verða gífurlegur liðsstyrkur fyrir bikarmeistarana.
,,Það er í 100% lagi með hausinn allavega. Ég er búinn að vera að æfa í World Class og er því í mjög fínu líkamlegu formi en fór á fótboltaæfingu í gær og er ekki á sama tempó og hinir leikmennirnir en það kemur væntanlega."
En við spurðum Þorvald hvort hann hafi ekki heyrt frá fleiri félögum? ,,Nei í raun og veru ekki, ég hafði bara samband við Val. Ég talaði við þá og það var gengið frá því samdægurs."
Þorvaldur lék með Fram áður en hann hætti í boltanum en er nú kominn í Val. Við spurðum hann hvort ekki hefði komið til greina að fara í Fram aftur?
,,Það hefði komið til greina ef þeir hefðu verið í efstu deild en þegar ég er kominn á þennan aldur vil ég vera í efstu deild og þeir eru í fyrstu deild og ég nennti því ekki."
Athugasemdir