FH - Aston Villa á Laugardalsvelli fimmtudaginn klukkan 18:00
,,Ég býst við að þetta verði frábær leikur og vona að ég sjá marga áhorfendur á Þjóðarleikvangnum. Vonandi nær FH góðum úrslitum," sagði Daninn Dennis Siim sem hefur átt fast sæti í liði FH í sumar og verður væntanlega í liðinu sem mætir Aston Villa á Laugardalsvelli í UEFA Cup á fimmtudagskvöld.
,,Auðvitað verður þetta erfitt. Þetta er lið úr efri hluta ensku úrvalsdeildarinnar svo þetta verður ekki auðvelt en við munum gera okkar allra besta og svo sjáum við bara hverju það skilar."
Enska úrvalsdeildin er gríðarlega vinsæl hér á landi og flestir leikir deildarinnar eru sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Dennis fylgist sjálfur vel með á veturna en nú fær hann að etja kappi við enskt lið.
,,Ég horfi á ensku deildina eins oft og ég get í sjónvarpinu. Ég þekki mikið til enska boltans og hvernig hann er. Í Aston Villa liðinu veit ég hver danski leikmaðurinn, Martin Laursen er, hann er danskur landsliðsmaður. Svo er John Carew þarna og margir fleiri. Ég hugsa að allir sem fylgjast með fótbolta þekkja nokkra leikmenn þarna."
Þarna minntist Dennis Simm á Martin Laursen en báðir eru þeir danskir og því spurðum við hann hvort þeir þekktust eitthvað persónulega?
,,Ég þekki hann ekki vel en ég hef nokkrum sinnum rætt við hann. Ég spilaði nokkrum sinnum gegn honum meðan hann var enn í Danmörku og áður en hann fór í ítölsku deildina. Þá lék hann með Silkeborg en ég lék í Árósum."
Siim hefur yfirleitt spilað á miðjunni hjá FH í sumar en leysti Tommy Nielsen af í vörninni í þarsíðasta leik er hann tók út leikbann og frammistaðan þótti það góð að þegar Tommy sneri aftur gegn KR um helgina hélt Siim sæti sínu. En líkar honum betur í vörninni?
,,Ég veit ekki hvort mér líki betur við það en mér líkar vel þar. Ég vil bara vera hluti af liðinu og hjálpa á þann hátt sem ég get. Ef ég á að spila þar þá geri ég það. Mér finnst miðvarðarstaðan fín, það er stundum auðveldara því þar spila ég við hlið Tommy og við tölum sama tungumálið. Þessi staða er ekkert ný fyrir mér því ég spilaði hana í mörgum leikjum í Danmörku líka."
FH vann mikilvægan 1-2 sigur á KR í Vesturbænum í fyrrakvöld en leikur liðsins þótti frábær og það besta sem hefur sést lengi hjá liðinu eða jafnvel í íslenskum fótbolta. Siim lék þá í vörninni og fékk hrós fyrir frammistöðu sína en telur sig ekki hafa verið með bestu mönnum.
,,Það gekk ágætlega, mér fannst ég ekki meðal bestu leikmanna í leiknum en við fengum þrjú stig sem var það mikilvægasta þá. Við spiluðum mikinn sóknarbolta í fyrradag en þetta verður ekki eins auðvelt og þá gegn Aston Villa. Ég veit ekki hvað uppleggið er en við munum gera okkar besta hvernig sem fer."
Klukkan 18:00 á fimmtudagskvöld verður svo flautað til leiks í fyrsta Evrópuleik islensks liðs gegn ensku í 13 ár eða síðan KR mætti Everton um árið. Dennis Siim veit að það er erfið viðureign fyrir höndum en hefur trú á verkefninu.
,,Þeir eru með hraða, stóra og sterka framherja en við munum bara gera okkar besta. Við munum ekki ganga inn á völlinn og búast við að tapa 6-0. Við ætlum að fara út á völlinn og láta reyna á þá og sjá hvað gerist. Auðvitað eru þeir miklu líklegra liðið, en þetta verður mjög gaman."
,,Ég held að ef við byrjum leikinn vel þá getum við strítt þeim. Þeir ætla sér það örugglega ekki en það verður skrítið ef þeir vanmeta okkur ekki á einhvern hátt. En ef við spilum vel þá er það bara eins og er í fótbolta, allt getur gerst."
Miðasala á leikinn er í fullum gangi á miðasöluvefnum Miði.is. Áhugasamir geta farið þangað og valið sér sæti og keypt miða. Smelltu hér til að kaupa miða á leikinn
Athugasemdir