Úrvalsdeildarfélög vilja lykilmenn frá Leipzig - Juve gæti reynt að kaupa Tonali - Tottenham hafnar tilboðum - Griezmann fær nýjan samning -...
   mið 04. nóvember 2009 12:12
Hafliði Breiðfjörð
Dennis Siim hættur í FH: Ekki auðvelt að fara frá félaginu
Dennis Siim í leik með FH í sumar
Dennis Siim í leik með FH í sumar
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Daninn Dennis Siim er hættur hjá Íslandsmeisturum FH en hann staðfesti þetta við Fótbolta.net nú í hádeginu. Siim segist vera á leið til heimalands síns, Danmerkur, þar sem kærasta hans hefur fengið starf og hann fylgir henni út.

,,Ég og kærasta mín og litla stelpan okkar erum á leið heim til Danmerkur núna. Kærasta mín fékk mjög gott starf í Danmörku og við teljum best að taka því og fara aftur heim til Danmerkur," sagði Siim við Fótbolta.net.

,,Ég hef ekkert tekið ákvörðun um hvað ég geri í Danmörku og veit það ekki. Ég mun skoða hvort ég geti fundið mér félag í Danmörku en ég hef nokkra mánuði til að taka ákvörðun. Ef það er mögulegt vil ég halda áfram í fótbolta."

Dennis Siim kom fyrst hingað til lands sumarið 2005 og spilaði lítið með FH það ár og 2006. Hann kom svo af fullu inn frá árinu 2007 og spilaði í heildina 59 leiki fyrir liðið í deild og bikar og skoraði þrjú mörk.

,,Ég átti mjög góðan tíma hjá FH. Við unnum titilinn þrjú af fjórum tímabilinum sem ég spilaði hérna og unnum líka bikarinn og spiluðum í Meistaradeildinni. Ég get ekki kvartað yfir neinu hérna," sagði Siim.

,,Það er erfitt að fara, og svolítið leiðinlegt. Þetta voru fjögur ár í lífi mínu og ekki auðvelt að fara frá félaginu en svona er þetta bara í þessum leik. Við höfðum rætt nýjan samning en kærasta mín flutti hingað með mér fyrir þremur árum síðan og nú vill hún fara heim og það er bara sanngjarnt að ég fylgi henni núna."

FH hefur misst nokkra leikmenn frá því tímabilinu lauk. Áður hafði Tryggvi Guðmundsson farið í ÍBV og Daði Lárusson í Hauka. Þá sneru Sverrir Garðarsson og Alexander Söderlund til baka til sinna félaga eftir að hafa verið í láni hjá FH. Auk þeirra er Davíð Þór Viðarsson að leita sér að félagi erlendis og erlend félög hafa sýnt Matthíasi Vilhjálmssyni áhuga.

Félagið hefur fengið þá Gunnar Má Guðmundsson úr Fjölni og Gunnleif Gunnleifsson úr HK.
Athugasemdir
banner
banner