Svakaleg barátta um Isak - Stórliðin á Englandi vilja senegalskan landsliðsmann - Garnacho til Barcelona?
   lau 01. mars 2025 19:42
Brynjar Ingi Erluson
Enski bikarinn: Bikarævintýri Plymouth á enda - Nítján ára með tvö skallamörk fyrir Man City
Nico O'Reilly skoraði tvennu með Man City
Nico O'Reilly skoraði tvennu með Man City
Mynd: EPA
Manchester City 3 - 1 Plymouth
0-1 Maksym Talovierov ('38 )
1-1 Nico OReilly ('45 )
2-1 Nico OReilly ('76 )
3-1 Kevin De Bruyne ('90 )

Manchester City er komið áfram í 8-liða úrslit enska bikarsins eftir að hafa unnið nauman 3-1 sigur á Plymouth á Etihad-leikvanginum í kvöld.

Ferðalag Plymouth í bikarnum var ótrúlegt miðað við stöðu liðsins í ensku B-deildinni. Þar er liðið í bullandi fallbaráttu en tókst að henda bæði Brentford og Liverpool úr bikarnum.

Man City hefur á meðan verið upp og niður í deildinni og í öðrum keppnum. Pep Guardiola gerði margar breytingar en liðið gerði nóg til að komast áfram.

Ekki byrjaði það vel hjá Man City sem lenti undir á 38. mínútu er Maksym Talovierov stangaði hornspyrnu í fjærhornið. Óvænt staða, en heimamenn svöruðu undir lok fyrri hálfleiks.

Hinn 19 ára gamli Nico O'Reilly gerði markið með skalla eftir aukaspyrnu Kevin de Bruyne.

O'Reilly var aftur á ferðinni þegar stundarfjórðungur var til leiksloka og það aftur með skalla en í þetta sinn eftir hornspyrnu Phil Foden.

De Bruyne kláraði dæmið með marki undir lokin. Erling Haaland slapp í gegn en markvörður Plymouth varði boltann aftur út á hann. Haaland ákvað að reyna ekki annað skot heldur leggja hann út á De Bruyne sem skoraði af stuttu færi.

Man City er komið í 8-liða úrslit en Plymouth úr leik. Guðlaugur Victor Pálsson var ónotaður varamaður hjá Plymouth.
Athugasemdir
banner
banner
banner