Svakaleg barátta um Isak - Stórliðin á Englandi vilja senegalskan landsliðsmann - Garnacho til Barcelona?
   sun 02. mars 2025 16:24
Brynjar Ingi Erluson
Enski bikarinn: Mark í framlengingu kom Brighton í 8-liða úrslit
Danny Welbeck skoraði sigurmarkið í framlengingu
Danny Welbeck skoraði sigurmarkið í framlengingu
Mynd: EPA
Isak kom Newcastle yfir með marki úr víti
Isak kom Newcastle yfir með marki úr víti
Mynd: EPA
Anthony Gordon sá rautt og missir af úrslitum deildabikarsins
Anthony Gordon sá rautt og missir af úrslitum deildabikarsins
Mynd: EPA
Newcastle 1 - 2 Brighton
1-0 Alexander Isak ('22 , víti)
1-1 Yankuba Minteh ('44 )
1-2 Danny Welbeck ('114 )
Rautt spjald: ,Anthony Gordon, Newcastle ('83)Tariq Lamptey, Brighton ('90)

Brighton er komið áfram í 8-liða úrslit enska bikarsins eftir að hafa unnið Newcastle United, 2-1, eftir framlengdan leik á St. James' Park.

Newcastle fór vel af stað. Sænski framherjinn Alexander Isak mætti aftur í byrjunarliðið eftir að hafa misst af stórleiknum gegn Liverpool í síðustu umferð deildarinnar og fór hann strax í það að skapa sér færi.

Hann setti boltann yfir úr einu slíku á 4. mínútu en bætti upp fyrir það fimmtán mínútum síðar.

Yankuba Minteh braut á Tino Livramento í teignum og var það Isak sem fór á punktinn og skoraði. Fyrsta bikarmark Svíans á tímabilinu.

Tíu mínútum síðar var mark dæmt af Isak vegna rangstöðu eftir að hann fékk sendingu inn fyrir og átti Bart Verbruggen ekki möguleika á að verja. Heppnin með honum þarna.

Brighton var með bakið upp við vegginn mest allan fyrri hálfleikinn og kom því á óvart þegar liðið náði inn jöfnunarmarki á 43. mínútu leiksins. Það gerði Minteh eftir magnaða sendingu frá Joao Pedro og staðan jöfn.

Þetta gaf Brighton orku inn í síðari hálfleikinn og var Joao Pedro nálægt því að koma gestunum yfir eftir slakan varnarleik hjá Newcastle en Martin Dubravka var vandanum vaxinn í markinu.

Joe Willock fór illa með dauðafæri þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Livramento átti glæsilega fyrirgjöf og var Willock líklegri til að skora en ekki, en honum brást bogalistin og hitti einfaldlega ekki boltann.

Sex mínútum fyrir leikslok varð Newcastle fyrir áfalli er Anthony Gordon fékk að líta rauða spjaldið fyrir að slá Jack Hinshelwood í andlitið í baráttu þeirra tveggja.

Beint rautt spjald og ljóst að Gordon verður ekki með Newcastle í úrslitaleik deildabikarsins gegn Liverpool. Mikil blóðtaka fyrir svarthvíta.

Mikill hiti var í mönnum á lokamínútunum og fór annað rautt spjald á loft í uppbótartíma þegar Tariq Lamptey braut á Jacob Murphy. Hans annað gula spjald og jafnt í liðum.

Newcastle taldi sig hafa skorað sigurmark á lokasekúndum uppbótartímans er aukaspyrna kom inn í teiginn og Fabian Schär sparkaði boltanum í netið, en VAR tók markið af vegna rangstöðu.

Liðunum tókst ekki að finna sigurmark í uppbótartímanum og því framlengt.

Brighton fékk besta færi fyrri hluta framlengingar er Danny Welbeck lagði boltann út á hann. Gomez lét vaða fínasta skoti að marki en Dubravka varði vel.

Gestunum tókst loks að skora sigurmarkið þegar sex mínútur voru eftir af framlengingunni. Solly March átti sendinguna í frábærri sókn Brighton sem Danny Welbeck batt endahnútinn á með laglegu skoti úr þröngu færi.

Ótrúlegt svekkelsi fyrir Newcastle sem var betra liðið stærstan hluta leiksins og bætir það síðan gráu ofan á svart að Anthony Gordon hafi fengið rauða spjaldið og missir af deildarbikarúrslitum.

Brighton fer áfram og verður í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslit á eftir.
Athugasemdir
banner
banner
banner