Jean-Philippe Mateta, leikmaður Crystal Palace, var fluttur upp á sjúkrahús eftir að hafa fengið slæmt höfuðhögg í sigri liðsins gegn Millwall í enska bikarnum í dag.
Liam Roberts, markvörður Millwall, fór í glórulaust úthlaup þar sem hann var í baráttunni við Mateta um boltann, hann vann vissulega þá baráttu en fór gríðarlega hátt með fótinn og sparkaði í höfuðið á Mateta.
„Hann er með meðvitund og farinn upp á sjúkrahús. Eyrað á honum lítur hræðilega út. Þetta eru slæm meiðsli og við óskum honum alls hins besta," sagði Oliver Glasner, stjóri Crystal Palace.
„Við getum ekki verið ánægðir. Auðvitað var þetta frábær sigur og komnir í átta liða úrslit en þegar þú missir leikmann eftir svona eru blendnar tilfinningar."
„Ég vildi ekki sjá þetta en ég verð að tala um þetta. Þetta er hræðilegt brot, ég er viss um að markvörðurinn hafi ekki ætlað sér að meiða Mateta. En ef þú ferð svona í boltann með þessum krafti í höfuðið, þú mátt þetta ekki því þetta er svo hættulegt. Ég vil ekki kenna honum um en þetta er hræðilegt brot," sagði Glasner að lokum.
Athugasemdir