Pablo Punyed sleit krossband í leik Víkings gegn Egnatia þann 1. ágúst í fyrra. Frá þeim degi eru liðnir 213 dagar eða um sjö mánuðir.
Fótbolti.net ræddi við Sölva Geir Ottesen, þjálfara Víkings, á föstudag og var hann spurður út í El Salvadorann og ýmislegt annað. Hinn 34 ára gamli Pablo er byrjaður að sprikla á æfingum með Víkingi.
Fótbolti.net ræddi við Sölva Geir Ottesen, þjálfara Víkings, á föstudag og var hann spurður út í El Salvadorann og ýmislegt annað. Hinn 34 ára gamli Pablo er byrjaður að sprikla á æfingum með Víkingi.
„Pablo er búinn að fara í mælingar og allar mælingar segja að hann megi byrja að spila, en það eru bara ca. sjö mánuðir síðan hann sleit. Það verður að fara eftir einhverjum reglum sem segja að það megi ekki byrja fyrr, en allar tölur segja að hann megi byrja bara núna. Batinn hans er búinn að vera einstaklega góður og flottur, og kemur kannski ekki á óvart miðað við hvernig leikmaður og persóna Pablo er. Hann er með allt upp á tíu þegar kemur að endurhæfingu og að hugsa vel um sjálfan sig. Við þurfum bara að vera þolinmóðir og hann þarf líka að vera þolinmóður, ég hef sjálfur gengið í gegnum krossbandsslit og þessi tíma núna er eiginlega sá erfiðasti. Þér finnst þú vera klár en þú mátt samt ekki spila. Það verður að fara dálítið rólega af stað og hann veit alveg af því."
„Róbert Orri er að koma til baka, hann tognaði aftan í læri gegn HK, er bara í sínu ferli og það gengur bara vel. Atli Þór er byrjaður að koma út í fótbolta og er með í jóker og svoleiðis. Hann ætti að geta fært sig nær því að vera með í kontakti úti í æfingaferðinni. Allir meiddu gæjarnir eru allir að skríða saman, ef ekkert gerist þá ættu vonandi allir að vera klárir fyrir tímabil, nema kannski Pablo," sagði Sölvi á föstudag.
Hvað segja gögnin varðandi Pablo, hvenær má hann fara á völlinn?
„Ég ætla ekki að tala eins og læknir, en það er talað um 9-11 mánuði eftir krossbandsslit. Menn vilja vera öruggir. En svo fer líka eftir því hvernig gengur, þetta gengur mismunandi hjá mönnum. Staðlaður punktur er 9-11 mánuðir en kannski er hægt að prófa sig áfram fyrir það. Ég sjálfur byrjaði sjö mánuði. það var örugglega ekki frábær hugmynd, það var eins og rússnesk rúlletta hjá mér, en ég slapp. Samtalið við Rúnar sjúkraþjálfara og lækna er virkt, Pablo verður bara trappaður upp."
„Það er eitthvað sem segir mér að Pablo verði byrjaður áður en níu mánuðir eru liðnir, en ég veit ekki hvort Rúnar sé sáttur við að ég segi það."
Verða að einbeita sér að því sem þeir geta stjórnað
Er einhver þróun á áhuga erlendra félaga á Karli Friðleifi Gunnarssyni eða Ara Sigurpálssyni?
„Kári (yfirmaður fótboltamála) heldur utan um þetta allt, það sem ég hef heyrt er að það er ekkert konkrít komið varðandi þá. Það er auðvitað áhugi á mönnum og það er búinn að vera lengi áhugi á þeim tveimur. Svo lengi sem það er ekkert tilboð komið þá er í raun ekkert að tala um. Leikmenn verða bara að einbeita sér að því sem þeir geta stjórnað og það er að hafa fullan fókus á það sem þeir eru að gera, það virkar yfirleitt alltaf best. Hlutirnir koma bara til manns þegar þeir koma til manns," sagði Sölvi á föstudag.
Æfingaferð Víkinga hefst í dag á Kanarí, þeir verða úti í tíu daga. Víkingar eru í leit að einum æfingaleik eftir æfingaferð, liðið á æfingaleik gegn Keflavík í kringum 22. mars og svo um viku síðar er úrslitaleikur Bose-mótsins gegn KR.
Athugasemdir