Marco Rose, þjálfari RB Leipzig í Þýskalandi, verður ekki látinn fara eftir 2-1 tap liðsins gegn Mainz um helgina en þetta kemur fram í grein Sky í dag.
Mikil vandræði hafa verið á liði Leipzig þrátt fyrir að vera með marga góða leikmenn í röðum sínum.
Liðið datt úr leik í þýska bikarnum á dögunum og er þá í vandræðum í baráttu sinni um Meistaradeildarsæti.
Leipzig er í 6. sæti með 38 stig, þremur stigum frá Meistaradeildarsætinu en félagið ætlar að gefa Rose annað tækifæri á að koma liðinu aftur á beinu brautina.
Sky segir að félagið sé ekki að íhuga að losa sig við hann á þessum tímapunkti, en hljóðið gæti verið annað ef liðið tapar stigum gegn Freiburg í næstu umferð.
Leipzig er líklegra til þess að gera breytingar í sumar en þrír þjálfarar koma til greina í starfið. Oliver Glasner hjá Crystal Palace er álitinn góður kostur, en þeir Roger Schmidt og Sebastien Hoeness eru einnig í baráttunni.
Athugasemdir