Bournemouth 1 - 1 Wolves (5-4 eftir vítakeppni)
1-0 Evanilson ('30 )
1-1 Matheus Cunha ('60 )
Rautt spjald: Matheus Cunha, Wolves ('120)
1-0 Evanilson ('30 )
1-1 Matheus Cunha ('60 )
Rautt spjald: Matheus Cunha, Wolves ('120)
Bournemouth er komið áfram í 8-liða úrslit enska bikarsins í annað sinn í sögu félagsins eftir að það vann Wolves eftir vítakeppni á Vitality-leikvanginum í dag. Matheus Cunha, lykilmaður Wolves, skoraði stórglæsilegt mark og var síðan rekinn af velli í framlengingunni.
Gengi liðanna hefur verið ólíkt á þessu tímabili. Wolves er í fallbaráttupakka á meðan Bournemouth er í baráttu um Evrópusæti, en það skiptir yfirleitt voðalega litlu máli þegar það kemur að bikarleikjum.
Evanilson kom Bournemouth yfir á 30. mínútu er hann hirti frákast í teignum.
Staðan 1-0 í hálfleik fyrir Bournemouth, en í síðari hálfleiknum þurfti magnað einstaklingsframtak frá Matheus Cunha til að koma Wolves aftur inn í leikinn.
Cunha fékk boltann um 30 metra frá marki og þrumaði boltanum í samskeytin hægra megin. Stórbrotið mark og sennilega flottasta mark umferðarinnar til þessa.
Bournemouth var líklegra liðið til að stela sigrinum í leiknum, en Sam Johnstone var að eiga stórleik í markinu.
Leikurinn fór í framlengingu og ekkert mark var skorað þar, en Wolves missti hins vegar sinn besta mann, Cunha, af velli þegar hann sá rautt fyrir að slá og skalla Milos Kerkez, leikmann Bournemouth. Hárrétt ákvörðun hjá dómara leiksins.
Í vítakeppninni skoruðu bæði lið úr fyrstu þremur spyrnunum en Johnstone varði fjórðu spyrnuna frá Dean Huijsen á meðan Matt Doherty skaut framhjá er hann gat tryggt Wolves sigurinn.
Lewis Cook jafnaði metin í vítakeppninni og þá var haldið í bráðabana. Boubacar Traore hamraði í þverslá fyrir Wolves á meðan Luis Sinisterra skoraði úr sjöttu spyrnu Bournemouth og þar við sat.
Bournemouth er komið í 8-liða úrslit en Wolves er úr leik.
Athugasemdir