Svakaleg barátta um Isak - Stórliðin á Englandi vilja senegalskan landsliðsmann - Garnacho til Barcelona?
   lau 01. mars 2025 20:05
Brynjar Ingi Erluson
Hjörtur Hermanns opnaði markareikninginn í Grikklandi
Hjörtur skoraði sitt fyrsta mark með Volos
Hjörtur skoraði sitt fyrsta mark með Volos
Mynd: Volos
Gísli er á toppnum með Lech Poznan
Gísli er á toppnum með Lech Poznan
Mynd: Lech Poznan
Hjörtur Hermannsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir gríska félagið Volos er það gerði 1-1 jafntefli við Aris í grísku úrvalsdeildinni í dag.

Árbæingurinn samdi við Volos í síðasta mánuði eftir að hafa spilað á Ítalíu síðustu ár.

Varnarmaðurinn jafnaði metin á 71. mínútu eftir hornspyrnu. Boltinn fór yfir allan pakkann og á fjær á Hjört sem skoraði með yfirveguðu og hnitmiðuðu skoti í vinstra hornið.

Sterkt stig í fallbaráttunni hjá Volos sem er nú með 22 stig í 12. sæti í fjórtán liða deild.

Þá spilaði Sverrir Ingi Ingason í hjarta varnarinnar hjá Panathinaikos sem vann Panetolikos, 2-0, en Panathinaikos er í 3. sæti með 46 stig eftir 24 leiki, átta stigum á eftir toppliði Olympiakos.

Hörður Björgvin Magnússon var ekki með Panathinakos en áætlað er að hann verði klár í apríl.

Andri Lucas Guðjohnsen var í byrjunarliði Gent sem gerði dramatískt 1-1 jafntefli við Club Brugge í belgísku úrvalsdeildinni. Jöfnunarmark Gent kom á annarri mínútu í uppbótartíma en þá var Andri farinn af velli. Gent er í 6. sæti með 42 stig og svo gott sem búið að tryggja sig í efri hluta umspilsins.

Davíð Snær Jóhannsson skoraði eina mark Álasunds sem tapaði fyrir Sogndal, 2-1, í æfingaleik í dag. Tímabilið hefst bráðlega í Noregi en Álasund leikur í næst efstu deild.

Júlíus Magnússon var í byrjunarliði Elfsborg og Hlynur Freyr Karlsson í liði Brommapojkarna er liðin gerðu 1-1 jafntefli í riðlakeppni sænska bikarsins. Jafntefli dugði Elfsborg til að komast áfram í 8-liða úrslit en liðið endaði með 7 stig á meðan Brommapojkarna hafnaði í öðru sæti og er úr leik.

Ari Leifsson kom inn af bekknum hjá Kolding sem vann 3-0 sigur á B93 í dönsku B-deildinni. Kolding er í 6. sæti með 30 stig.

Cole Campbell var í liði varaliðs Dortmund sem tapaði fyrir Essen, 1-0, í þýsku C-deildinni. Dortmund er í 11. sæti með 33 stig.

Kristófer Jónsson spilaði allan leikinn með Triestina sem gerði 2-2 jafntefli við Virtus Verona í C-deildinni á Ítalíu. Triestina er í 16. sæti A-riðils með 33 stig.

Elías Már Ómarsson og félagar í NAC Breda töpuðu fyrir Utrecht, 1-0, í hollensku úrvalsdeildinni. Kolbeinn Birgir Finnsson var ónotaður varamaður hjá Utrecht sem er í 3. sæti með 46 stig en Breda í 11. sæti með 27 stig.

Gísli Gottskálk Þórðarson kom inn á sem varamaður hjá Lech Poznan sem vann Pogon Szczecin, 3-0, í pólsku úrvalsdeildinni. Hann lék síðustu mínútur leiksins, en Lech Poznan er á toppnum með 47 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner