Sænska liðið Norrköping er komið áfram í 8-liða úrslit bikarsins eftir 3-0 sigur liðsins á GAIS í dag.
Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson voru báðir í byrjunarliði Norrköping á meðan Jónatan Guðni Arnarsson var á bekknum.
Róbert Frosti Þorkelsson var á bekknum hjá GAIS og kom inn á þegar lítið var eftir af leiknum.
Norrköping vann alla þrjá leiki sína í riðlakeppni bikarsins og hefur því bókað sæti sitt í 8-liða úrslit en GAIS er úr leik.
Birkir Bjarnason kom inn af bekknum hjá Brescia sem tapaði fyrir Palermo, 1-0, í B-deildinni á Ítalíu. Brescia er í 14. sæti með 30 stig.
Guðmundur Þórarinsson og félagar í armenska liðinu Noah eru með fimm stiga forystu á toppnum eftir að liðið vann 4-0 sigur á Shirak Gyumri í dag.
Noah á leik til góða og getur aukið forystu sína í átta stig.
Guðmundur glímdi við meiðsli undir lok síðasta árs en hefur nú spilað síðustu tvo leiki.
Elías Rafn Ólafsson stóð á milli stanganna hjá Midtjylland sem vann hádramatískan 2-1 sigur á Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni.
Staðan var jöfn þegar lítið var eftir. Nordsjælland kom boltanum í netið en VAR tók markið af vegna rangstöðu og aðeins nokkrum mínútum síðar skoraði Pedro Bravo sigurmarkið fyrir heimamenn og kom liðinu upp að hlið FCK á toppnum.
Samkvæmt FotMob var Elías með bestu mönnum Midtjylland en hann átti sex vörslur í leiknum, þar af tvær mikilvægar undir lokin. Frábær frammistaða hjá landsliðsmarkverðinum sem fær 8,4 í einkunn.
Athugasemdir