Benoný Breki Andrésson kom sér á blað hjá Stockport County og það með stæl en hann kom inn af bekknum og skoraði bæði mörk liðsins er það vann Blackpool., 2-1, í ensku C-deildinni í dag.
Framherjinn samdi við Stockport um áramótin eftir að hafa slegið markametið í efstu deild með KR-ingum á síðustu leiktíð.
Eins og með alla leikmenn þá þurfti hann aðlögunartíma en hann var að spila sinn þriðja leik með félaginu í dag.
Benoný kom inn af bekknum í hálfleik er Stockport var marki undir og gerði hann sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk og tryggði liðinu sigurinn.
Hann jafnaði strax á 47. mínútu eftir sendingu Tanto Olaofe. Benoný fékk boltann og setti hann af öryggi í netið sem var hans fyrsta mark fyrir félagið.
Tíu mínútum fyrir leikslok stangaði hann fyrirgjöf í netið og sótti öll þrjú stigin fyrir Stockport. Ótrúleg innkoma hjá Benoný og munu þessi mörk vafalaust gefa honum mikið fyrir lokakafla tímabilsins.
Stockport er í 4. sæti C-deildarinnar með 60 stig þegar tólf leikir eru eftir af deildinni.
Jón Daði Böðvarsson var ekki í leikmannahópi Burton sem gerði 1-1 jafntefli við Mansfield og þá var Willum Þór Willumsson í byrjunarliði Birmingham City sem vann 1-0 sigur á Wycombe Wanderers í titilbaráttuslag.
Alfons Sampsted var ónotaður varamaður en Birmingham er áfram á toppnum með 76 stig, nú tólf stigum meira en Wycombe og útlit fyrir að Birmingham sé á leið í B-deildinni.
Jason Daði Svanþórsson var þá á sínum stað í byrjunarliði Grimsby Town sem gerði 1-1 jafntefli við Cheltenham. Grimsby er í 8. sæti ensku D-deildarinnar með 52 stig.
Edgeley Park has a new hero, and his name is Benoný Breki Andrésson ????#StockportCounty pic.twitter.com/Jos07L0N93
— Stockport County (@StockportCounty) March 1, 2025
Athugasemdir