Þessir eru á óskalista Man Utd - Tilboði Arsenal í Calafiori hafnað - Barcelona vill Olmo
   þri 02. júlí 2024 15:25
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ekki lengur eitthvað leyndarmál - „Fallegt að fylgjast með þessu"
Diogo Costa.
Diogo Costa.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Haraldur Björnsson, markvarðarþjálfari Breiðabliks.
Haraldur Björnsson, markvarðarþjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Costa fagnar eftir að hafa farið víti í gær.
Costa fagnar eftir að hafa farið víti í gær.
Mynd: EPA
Costa varði líka vel fyrir vítaspyrnukeppnina.
Costa varði líka vel fyrir vítaspyrnukeppnina.
Mynd: EPA
Best geymda leyndarmálið í Portúgal.
Best geymda leyndarmálið í Portúgal.
Mynd: Getty Images
'Þetta var líklega besti leikur lífs míns'
'Þetta var líklega besti leikur lífs míns'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Cristiano Ronaldo stal senunni í gær þegar Portúgal komst áfram í átta-liða úrslit Evrópumótsins, en það var markvörðurinn Diogo Costa sem var hetjan.

Ronaldo grét þegar Jan Oblak, markvörður Slóveníu, varði frá honum vítaspyrnu í framlengingunni, en Costa kom til bjargar þegar í vítaspyrnukeppnina var komið. Costa, sem er á mála hjá Porto í heimalandinu, varði allar þrjár vítaspyrnurnar sem hann fékk á sig. Hann snögghitnaði eins og handboltamarkvörður.

Fyrir vítaspyrnukeppnina hafði Costa varið frábærlega frá Benjamin Sesko, undrabarninu í liði Slóveníu. Hann sá til þess að koma Portúgal í vítaspyrnukeppnina og kláraði dæmið svo þar.

Fótbolti.net ræddi aðeins við markvörðinn og markvarðarþjálfarann Harald Björnsson um þessa snilli Costa í gær.

„Markvarslan hjá Oblak úr vítinu hjá Ronaldo var ekkert eðlilega góð, alveg út við stöng. Diogo Costa var ekki búinn að hafa mikið að gera í leiknum en hann varði svo stórkostlega líka frá Sesko. Það var ekki ósvipað markvörslunni hjá Emi Martinez í úrslitaleik gegn HM, á móti Kolo Muani," sagði Haraldur en Costa sýndi þar þolinmæði og frábæra tímasetningu til að loka á Sesko. Hann hélt svo áfram hvað það varðar í vítaspyrnukeppninni, er greinilega búinn að stúdera það vel.

„Það er svo gaman að sjá það þegar markverðir ráða svona stórum hluta leiksins."

Kraftur í Costa
Costa sýndi mikinn kraft í vítunum og náði að spyrna sér vel frá jörðu með aftari fæti.

„Portúgalarnir virðast hafa unnið heimavinnuna sína vel. Slóvenarnir voru lítið hikandi, tóku gott tilhlaup og settu hann svo í hornið. Costa er helvíti kraftmikill, hann beið og las þetta. Það eru ekki margir markverðir sem hafa farið í gegnum vítaspyrnukeppni og haldið hreinu. Miðað við tölfræðina er það eiginlega bara fáránlegt," segir Haraldur en Costa er fyrsti markvörðurinn í sögu EM til að halda hreinu í vítaspyrnukeppni.

„Hann er klárlega búinn að stúdera þetta mjög vel, hvernig hann spyrnir sér af öðrum fætinum en skilur hinn eftir á línunni og hann gerir þetta á réttum tíma."

Fallegt að fylgjast með þessu
Vítaspyrnukeppnir eru alls ekki auðveldar fyrir markverði og sérstaklega ekki þegar á svona stórt svið er komið. Þetta snýst líka um hausinn, að halda einbeitingu, fara á réttum tíma og reyna að lesa í andstæðinginn.

„Það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir því hvernig það er þegar þú ert kominn í vítaspyrnukeppni á þessu stigi, þegar það eru 50 þúsund manns á vellinum sem eru með læti. Þú þarft að vera mjög sterkur í höfðinu til að einbeita þér að þessu," segir Haraldur.

„Þeir hafa klárlega unnið heimavinnuna og þú þarft að vera með það á hreinu hvar þessi skýtur á markið og hvert hinn mun skjóta. Ég get ímyndað mér að öll þessi lið sem eru á þessum stað séu með fjölmarga greinendur sem hafa farið ansi langt aftur í tímann til að skoða mögulegar vítaskyttur, hvert þeir skjóta og annað. Til þess að eiga meiri möguleika. Þetta er ákveðin listgrein en þú skapar þína eigin heppni með því að undirbúa þig og vera duglegur. Kannski var hann í gírnum eftir þessa einu vörslu en ég held að það þurfi samt meira til."

„Það var fallegt að fylgjast með þessu."

Vel geymt leyndarmál
Costa, sem er 24 ára, hefur sýnt það og sannað að hann er öflugur markvörður en hann er enn að spila með Porto í Portúgal. Hann hefur þó gæðin og eiginleikana til að spila á stærra sviði.

„Maður horfir ekki mikið á portúgölsku deildina en maður er hrifinn af því sem maður hefur séð," segir Haraldur. „Þetta virkaði svo þægilegt fyrir hann. Öll þrjú vítin voru eiginlega í nákvæmlega sömu hæð og hann var með báðar hendur á öllum vítunum."

„Það er alltaf gaman að sjá markverðina taka yfir. Við fáum sjaldnast það hrós sem við eigum inni," sagði hann svo léttur.

Costa talaði sjálfur um það eftir leik að lykilatriði fyrir sig væri að leggja á sig mikla vinnu, hann skapaði sína eigin heppni og bjó þannig til minna lotterí úr vítaspyrnukeppninni. „Það mikilvægasta er að leggja á sig vinnuna og treysta á sjálfan sig. Það er í fyrsta sæti hjá mér og svo færðu stundum verðlaun fyrir það."

Roberto Martinez, landsliðsþjálfari Portúgal, var mjög ánægður með markvörðinn sinn. „Hann er vel geymt leyndarmál í Portúgal. Ég hef unnið með mörgum góðum markvörðum og hann er einn af þeim bestu."

Á kvöldi sem Ronaldo átti að vera stjarnan, þá var það Costa sem reyndist hetjan. „Já, þetta var líklega besti leikur lífs míns," sagði markvörðurinn öflugi eftir leikinn. Hann er ekki lengur eitthvað leyndarmál.
Athugasemdir
banner
banner