Willum Þór Willumsson sneri aftur í byrjunarlið Breiðabliks í dag eftir að hafa misst af nokkrum leikjum vegna meiðsla.
Lestu um leikinn: Breiðablik 1 - 1 Grindavík
Breiðablik fékk Grindavík í heimsókn og átti Willum þokkalegan leik í svekkjandi jafntefli. Sigur hefði komið liðinu í toppbaráttuna en núna eru fimm stig í topplið Vals þegar þrjár umferðir eru eftir.
„Það var ekki gaman að missa af þessum leikjum. Mér fannst við spila vel gegn Val og Stjörnunni og áttum skilið meira út úr þeim leikjum," sagði Willum að leikslokum.
Willum telur að Blikar hafi klúðrað leiknum með því að vera alltof passívir eftir leikhlé.
„Í seinni hálfleik fannst mér eins og við værum bara að bíða eftir að leikurinn væri búinn. Við hefðum kannski átt að sækja meira á þá í stöðunni 1-0."
Breiðablik mætir Stjörnunni í úrslitaleik Mjólkurbikarsins eftir tvær vikur.
Athugasemdir