mið 02. nóvember 2022 15:24
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Átti að staðfesta þátttöku í gær - Mörg félög ekki búin að skila
Kórdrengir fagna marki í sumar.
Kórdrengir fagna marki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Heyrst hefur að óvissa sé með það hvort Kórdrengir verði með í Íslandsmótinu næsta sumar. Það kom fram í slúðurpakkanum á dögunum að vangaveltur væru um það hvort félagið sendi lið til leiks á nýju tímabili.

Davíð Smári Lamude, sem hefur þjálfað liðið frá stofnun þess, hætti nýverið til þess að taka við Vestra. Davíð var gríðarlega mikilvægur fyrir félagið en lítið sem ekkert hefur heyrst af því hver muni taka við starfi hans.

Kórdrengir eru á meðal félaga sem hafa ekki staðfest þátttöku sína í Íslandsmótinu á næsta ári.

Í reglugerð KSÍ segir: „Félög sem rétt eiga til þátttöku í landsdeildum meistaraflokks skulu þó staðfesta þátttöku sína þar með formlegum hætti fyrir 1. nóvember árið áður."

Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ, segir að það megi hins vegar ekki lesa of mikið í það strax að félög séu ekki búin að staðfesta þátttöku sína á þessum tímapunkti. Hann segir að fjölmörg félög eigi eftir að staðfesta þátttöku sína. Hann telur að línur muni betur skýrast á næstu dögum.

„Það eru félög í Bestu deild karla og kvenna sem hafa ekki skilað. Ég ætlaði að láta daginn líða og svo fer ég að senda mönnum ábendingu um það, sem hafa ekki skilað. Ég geri ráð fyrir að menn hafa rokið til Tene eftir tímabilið og séu ekki vakandi fyrir öllum póstum sem ég hef sent út," segir Birkir við Fótbolta.net.

„Ég myndi ekki lesa of mikið í þetta núna. Það eru félög í öllum deildum sem hafa ekki staðfest þátttöku sína."

Samkvæmt reglugerð KSÍ þá mun Ægir úr Þorlákshöfn, liðið sem endaði í þriðja sæti 2. deildar í sumar, fara upp í Lengjudeildina ef Kórdrengir senda ekki lið til leiks næsta sumar.
Athugasemdir
banner
banner