Ben Brereton Diaz, leikmaður Southampton, er á leið aftur til Sheffield United á láni en þetta segir Sky Sports í dag.
Sílemaðurinn eyddi síðari hluta síðasta tímabils á láni hjá Sheffield United frá Villarreal er liðið féll aftur niður í B-deildina.
Hann gekk í raðir Southampton fyrir þetta tímabil og átti að hjálpa til við að halda nýliðum úrvalsdeildarinnar samkeppnishæfum, en það hefur ekki beint gengið eins og í sögu.
Framherjinn hefur ekki skorað í tíu deildarleikjum sínum og tjáði Southampton leikmanninum í síðasta mánuði að hann mætti fara annað í glugganum.
Sky Sports segir að hann sé nálægt því að ganga aftur í raðir Sheffield United á láni en Chris Wilder, stjóri Sheffield, vildi ólmur fá hann aftur og eru viðræður sagðar á lokastigi.
Sheffield United er í 3. sæti B-deildarinnar með 52 stig og í harðri toppbaráttu við Burnley og Leeds.
Díaz vonast til þess að komast aftur á skrið en hann skoraði 6 mörk í 16 úrvalsdeildarleikjum með Sheffield á síðustu leiktíð og kann þá virkilega vel við sig í B-deildinni eftir að hafa raðað inn mörkum með Blackburn Rovers frá 2020 til 2023.
Athugasemdir