Liverpool opið fyrir tilboðum í Nunez - AC Milan vill fá Rashford - Ferguson á blaði hjá West Ham
   sun 05. janúar 2025 15:00
Brynjar Ingi Erluson
Barcelona og Milan í baráttuna um Rashford
Mynd: Getty Images
Stórveldin Barcelona og Milan eru komin í baráttuna um enska sóknarmanninn Marcus Rashford en þetta kemur fram í enskum og ítölskum miðlum í dag.

Útlit er fyrir að Rashford fari frá Manchester United í glugganum en hann hefur lítið komið við sögu síðan Ruben Amorim tók við keflinu af Erik ten Hag.

Rashford opnaði sig sjálfur og sagði kannski þetta vera rétta tímann til að breyta um umhverfi.

Félög í Sádi-Arabíu og Bandaríkjunum eru mjög áhugasöm um að fá Rashford en þau munu fá samkeppni.

Daily Star segir Barcelona vera að leiða kapphlaupið um Rashford en líklegast er að hann verði þá lánaður út tímabilið með möguleika á að gera skiptin varanleg.

Ítalski blaðamaðurinn Matteo Moretto heldur því þá fram að AC Milan sé í viðræðum við Manchester United, en að viðræðurnar séu ekki komnar langt á veg. Hann talar einnig um lánssamning og að Milan myndi greiða hluta af launum Englendingsins.

Rashford, sem er 27 ára gamall, er ekki í leikmannahópi United gegn Liverpool í dag en hann er að glíma við veikindi.

Hann hefur spilað einn leik síðasta mánuðinn en það var gegn Viktoria Plzen í Evrópudeildinni. Framherjinn var á bekknum gegn Newcastle United í deildinni í lok desember en kom ekkert við sögu.
Athugasemdir
banner