Liverpool opið fyrir tilboðum í Nunez - AC Milan vill fá Rashford - Ferguson á blaði hjá West Ham
   sun 05. janúar 2025 11:30
Brynjar Ingi Erluson
Amorim ætlar að standa við gefin loforð
Mynd: EPA
Sænski framherjinn Viktor Gyökeres mun ekki fara til Manchester United í þessum mánuði en þetta segir enski vefmiðillinn Mirror í dag.

Á dögunum var greint frá því að United ætlaði að reyna fá Gyökeres í þessum glugga.

Gyökeres er 26 ára gamall og tókst að skora 62 mörk með Sporting og sænska landsliðinu á síðasta ári.

Öll stærstu félög Evrópu eru með hann í sigtinu en ljóst er að United mun ekki berjast um hann í þessum glugga.

Ruben Amorim, stjóri Man Utd, lofaði því rétt áður en hann yfirgaf Sporting að hann myndi ekki kaupa leikmenn frá félaginu á miðju tímabili, en vildi halda öllu opnu fyrir sumargluggann.

„Ég ætla ekki að kaupa leikmenn frá Sporting í janúar, en ég veit ekki hvað ég mun gera í sumar,“ sagði Amorim á blaðamannafundinum.

Mirror segir að Amorim ætli að standa við gefin loforð og því kemur hvorki Gyökeres né Geovany Quenda í þessum mánuði.

Það gæti vel farið svo að hann fái fleiri en tvo leikmenn frá sínu gamla félagi í sumar en varnarmaðurinn Goncalo Inacio er einnig sagður ofarlega á lista portúgalska stjórans.
Athugasemdir
banner
banner
banner